Nýr leikskólastjóri í Leikskólanum Tröllaborg

Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri „út að austan“ á leikskólanum Tröllaborg frá 1. ágúst. Jóhanna tók við af Önnu Árnínu Stefánsdóttur sem gengt hefur starfi leikskólastjóra Tröllaborgar í hartnær þrjá áratugi.

Jóhanna lauk B.Ed. prófi í leikskólakennarafræðum frá kennaradeild Háskólans á Akureyri árið 2006. Hún lauk einnig diplómu í menntunarfræðum frá kennaradeild Háskólans á Akureyri með áherslu á stjórnun í skólastofnunum árið 2008 og fékk þá um leið leyfisbréf sem grunnskólakennari. Jóhanna hefur einnig stundað viðbótardiplómanám í faggreinakennslu í náttúrufræði fyrir starfandi grunnskólakennara við Háskóla Íslands. Jóhanna starfaði um sjö ára skeið sem almennur starfsmaður og síðar leikskólakennari við Leikskólann Tjarnarás í Hafnarfirði. Hún hefur gengt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum, s.s. stöðu trúnaðarmanns grunnskólakennara í FG og tekið þátt í ýmsum sjálfboðaliðastörfum. Hún lauk einnig tölvu- og rekstrarnámi frá Rafiðnaðarskólanum árið 1997. Jóhanna Sveinbjörg hefur starfað sem grunnskólakennari í Grunnskólanum austan Vatna undanfarin sex ár. Alls sóttu þrír einstaklingar um starf leikskólastjóra Tröllaborgar.

Á heimasíðu leikskólans kemur fram að haustið 2003 var ákveðið að sameina leikskólana út að austn þ.e. Brúsabæ á Hólum, Barnaborg á Hofsósi og Bangsabæ í Fljótum, og ráða einn leikskólastjóra. Hver deild hélt þó sínum séreinkennum. Í fyrstu var þessi sameinaði leikskóli alltaf kallaður „Út að austan“ sem mörgum fannst hljóma heldur illa. Það var því ákveðið að hafa skoðunarkönnun og fengu foreldrar barnanna í leikskólanum að velja um fjögur nöfn: Dvergabær, Skagaborg, Út að austan og Tröllaborg, sem að endingu varð fyrir valinu en hver deild hélt sínu gamla nafni. Vorið 2014 var Bangsabæ í Fljótum lokað en Barnaborg og Brúsabær eru enn starfandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir