Nýtt fjós í Hjaltadal

Nýja fjósið á Skúfsstöðum er glæsileg bygging. Myndir: FE
Nýja fjósið á Skúfsstöðum er glæsileg bygging. Myndir: FE

Fjöldi fólks heimsótti bæinn Skúfsstaði í Hjaltadal sl. sunnudag þegar bændurnir þar, Þorsteinn Axelsson og Jóhanna Bjarney Einarsdóttir, buðu gestum og gangandi að þiggja veitingar og skoða nýtt fjós sem þau eru að taka í notkun. 

Nýja fjósið er hið glæsilegasta og sérstaka athygli vekur mjög stórt og rúmgott malarborið svæði umhverfis bygginguna. Húsið er 1074 fermetrar að stærð og í því eru legubásar fyrir 104 kýr. Tveir Lely A5 mjaltaróbotar eru í fjósinu og einnig Lely sköfuróbóti. Einnig voru settar upp sérstakar velferðarmilligerðir úr plasti í þeim tilgangi að huga að velferð kúnna. 

Fyrstu skóflustunguna tók Jóhanna þann 20. apríl 2018 með 45 tonna beltagröfu í eigu Víðimelsbræðra sem sáu svo um mest alla jarðvegsvinnu og malarkeyrslu en Bessi í Hofsstaðaseli sá um að mala í fyrrnefnt plan. Steypuþáttur byggingarinnar var í höndum K-taks og Baldurs múrara en húsið sjálft er keypt af Landstólpa, sem sá svo um að reisa það. Tengill sá um rafmagnið og Kári Þorsteinsson sá um pípulagnirnar. „Okkur til aðstoðar í uppsetningum á öllum innréttingum fengum við meistarann Herbert Hjálmarsson á Ytri-Hofdölum sem reyndist okkur algjör hjálparhella, einnig komu nágrannar og vinir okkur til aðstoðar,“ segja þau Þorsteinn og Jóhanna.Þau eru að vonum hæstánægð með nýju bygginguna sem tvímælalaust mun auðvelda þeim störfin við búskapinn í framtíðinni þó vissulega muni taka dálítinn tíma fyrir menn og dýr að laga sig að nýju tækninni. Sem stendur eiga þau um 70 kýr en áforma að fjölga þeim á næstunni. Aðspurð segjast þau áætla að um 300 manns hafi heimsótt þau á sunnudaginn og vilja koma á framfæri kærum þökkum til allra fyrir komuna.           

 
 
            

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir