Óheiðarlegir hótelgestir á ferli á Norðurlandi

Tjón Hótel Laugarbakka vfegna mannanna er metið á um 80 þúsund krónur. Mynd: northwest.is
Tjón Hótel Laugarbakka vfegna mannanna er metið á um 80 þúsund krónur. Mynd: northwest.is

Ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi hafa undanfarið fengið að kenna á tveimur óprúttnum ferðalöngum sem bókað hafa gistingu í nafni breskrar konu, Juliu Hurley, og stungið af frá ógreiddum reikningum ásamt því að hafa á brott með sér verðmæti.

Síðastliðinn föstudag varaði Benedikt Viggósson hjá  Viking Cottages & Apartments á Akureyri við tveimur mönnum sem bókuðu gistingu í nafni Juliu Hurley frá Englandi. Þeir mættu á staðinn og að því er kemur fram á Facebooksíðunni Bakland ferðaþjónustunnar stálu þeir þaðan verðmætum sem metin eru á um 200 þúsund krónur.

Daginn eftir segir Ragnar Bragi Ægisson á Hótel Laugarbakka farir sínar ekki sléttar. Þar skráðu tveir menn sig inn til gistingar undir nafni fyrrgreindrar Juliu til tveggja nátta. Sögðust þeir vera vinir og ætla að gista saman fyrri nóttina en daginn eftir færi annar þeirra og eiginkona hins kæmi í staðinn og myndi hún gista seinni nóttina og greiða reikninginn. Mennirnir snæddu kvöldmat sem skrifaður var á herbergið. Daginn eftir voru þeir horfnir og höfðu á brott með sér farsíma úr herberginu. Er tjónið metið á um 80 þúsund krónur.

Hvetur Ragnar Bragi fólk í ferðaþjónustu til að hafa varann á og hafa samband við lögreglu verði það vart við svipað framferði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir