Olís byggir bensínstöð við Strandveginn á Króknum

Myndin sýnir byggingarsvæði nýrrar sjálfsafgreiðslustöðvar.
Myndin sýnir byggingarsvæði nýrrar sjálfsafgreiðslustöðvar.

Eflaust hafa einhverjir klórað sér í kollinum vegna framkvæmda á lóðinni Borgarflöt 31á Sauðárkróki, neðan við lóð Skagafjarðarveitna. Samkvæmt upplýsingum Feykis stendur Olís fyrir framkvæmdunum en á lóðinni, sem er 2555 fermetrar, er fyrirhugað að byggja sjálfsafgreiðslustöð ÓB með þremur eldsneytisdælum.

Sótt var um að koma fyrir nýrri sjálfsafgreiðslustöð á steyptu áfyllingarplani með dæluskyggni, koma fyrir tæknirými í tengslum við sjálfsafgreiðslustöð og koma fyrir ID skilti.

Fyrir eru á Sauðárkróki þrjár bensínstöðvar, N1 stöð á Ábæ, Orkan Bláfelli og loks er Olís með tank við Verslun Haraldar Júlíussonar þar sem Bjarni Haraldsson stendur vaktina en nálgast nú óðfluga tíræðisaldurinn.

Brennustæði Sauðárkróks hefur síðustu árin verið rétt sunnan lóðar Olís og væntanlega væri nú óráðlegt að kveikja áramótabrennu í bakgarði bensínstöðvar. Að sögn Jóns Arnar Berndsen, skipulagsfulltrúa Svf. Skagafjarðar, hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort brennustæðið verður flutt né þá hvert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir