„Ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með þessum frábæru strákum“

Bjarki Már.  MYND: ÓAB
Bjarki Már. MYND: ÓAB

Það gengur ýmislegt á í boltanum. Eftir sigurleik Tindastóls gegn liði Fjarðabyggðar í dag var spilandi þjálfara liðsins, Bjarka Má Árnasyni, sagt upp störfum. Ýmsir undrast sennilega tímasetninguna á þessum gjörningi en aðeins eru tvær umferðir eftir af tímabilinu og liðið í hörku baráttu um að halda sæti sínu í deildinni. 

Feykir setti sig í samband við Bjarka Má sem hafði þetta um málið að segja: „Ég er bara ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með þessum frábæru strákum og ég hef svo sannarlega gert mitt besta og fannst frábært að vinna með Guðjóni. Og veit ég að strákarnir koma til með að halda sér í deildinni. Er ég bara þakklátur [fyrir] öll þau ár sem ég fékk hjá þessum dásamlega klúbbi, er ég Tindastólsmaður út í gegn, áfram Tindastóll!!!“

Bjarki á að baka ríflega 200 leiki með liði Tindastóls og var valinn Íþróttamaður Skagafjarðar 2008. Hann tók við liði Tindastóls fyrir þetta tímabil ásamt Guðjóni Erni Jóhannssyni sem nýverið lét af störfum. 

Á þessum tímapunkti hefur ekki komið fram hverjar ástæðurnar eru fyrir brottrekstri Bjarka en samkvæmt heimildum Feykis er von á yfirlýsingu frá knattspyrnudeild Tindastóls á morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir