Ótrúlegur undirlægjuháttur sveitarstjórnar Skagafjarðar gagnvart Landsneti

Það hefur ekki farið hátt en nú hefur meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar, skipaður B og D lista, ákveðið að festa Blöndulínu 3, sem 220 kV háspennuloftlínu í sessi í aðalskipulagi Skagafjarðar, með áætluðum 3 km jarðstrengsstubb þó. Flutningsgeta þessa fyrirhugaða stóriðjumannvirkis, sem hvergi á að tengjast í Skagafirði, er um 500 MW (megawött).

Hámarksafkastageta Blönduvirkjunar er 150 Mw. Flutningsgeta núverandi byggðalínu er 100 MW. Blönduvirkjun er alla jafna keyrð á 60-70 MW, því að öðrum kosti tæmist uppistöðulónið á örfáum mánuðum. Af þessum 60-70 MW er drjúgur hluti fluttur á stóriðjusvæði Suðvesturlands. Hæstu álagspunktar í spennivirkjum ofan Varmahlíðar eru nálægt 15 MW og að jafnaði er álagið vel undir 10 MW. Á þessum tölum má glögglega sjá að flutningsmannvirki af þeirri stærð sem nú eru áætluð, hafa ekkert með raforkuþörf almennings að gera, heldur eiga einungis að rísa til að fullnægja orkuþörf erlendrar stóriðjuvera í fjarlægum landshlutum, sem greiða ekki einu sinni skatt til íslensks samfélags.

Sveitarstjórn hefur brugðist Skagfirðingum
Átök um línulagnir í Skagafirði hafa staðið í 10 ár og hafa landeigendur lagt á sig ómælda vinnu og fjármuni til varnar ásýnd Skagafjarðar og skagfirskri náttúru. Í gegnum árin hafa verið haldnir vel auglýstir, opnir íbúafundir í Miðgarði, Árgarði, Hótel Varmahlíð og víðar. Þar hafa mætt fyrirlesarar, lærðir og leikmenn, flutt erindi og setið fyrir svörum í pallborði. Allan þennan tíma hafa fulltrúar sem tengjast núverandi meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar dregið lappirnar í málinu. Aldrei hafa fulltrúar B og D lista látið svo lítið að láta sjá sig á þessum fundum til að taka samtalið, og það þrátt fyrir að vera boðið sérstaklega. Fulltrúunum hefur jafnframt verið boðið að halda erindi og skýra afstöðu meirihluta sveitarstjórnar í málinu og taka þátt í pallborðsumræðum, en allt hefur komið fyrir ekki, sveitarstjórn hefur skort kjark. Hafi hins vegar Landsnet boðað til fundar, þá fær fólk kjarkinn. Forystufólk sveitarstjórnar situr þá hnarrreist með erindreka frá Landsneti á báðar hendur og reyna að matreiða lygaþvæluna ofan í fundargesti. Undantekning frá þessari hegðun eru fulltrúar VG og óháðra, Bjarni Jónsson og Hildur Þóra Magnúsdóttir sem hafa mætt á fundi og kynnt sér málið vel frá upphafi. Þá mætti Sigurjón Þórðarson til fundar á meðan hann sat í sveitarstjórn.

Engin tenging í Skagafirði
Ráðist var í gerð heimildamyndar um baráttuna sem tók mörg ár í vinnslu og hlaut hún nafnið Línudans. Þar er sagan rakin og er myndin hin besta kynning á Skagafjarðarhéraði. Ræman var frumsýnd í Sauðárkróksbíói um páskana 2017 og auglýst með góðum fyrirvara. Það er skemmst frá því að segja að ekki einn einasti kjörinn fulltrúi, hvorki aðal- né varamaður lét sjá sig á sýningunni. Hreint ótrúleg viðbrögð (viðbragðsleysi) í jafn stóru máli. Reynt var með öllum ráðum að þegja málið í hel.

Í kjölfarið var myndin sýnd tvívegis í sjónvarpi allra landsmanna og þá hraktist fólk út úr greninu. Í umræðu sem spannst  í framhaldinu kaus formaður byggðaráðs, yfirmaður í lögreglunni og núverandi varaþingmaður, Stefán Vagn Stefánsson að segja ósatt í viðtali við Feyki (kallað að ljúga á góðri íslensku). Hélt hann því fram að línan ætti að tengjast í Skagafirði og ef línan færi í jörð, þá bæri Skagfirðingum að borga brúsann. Hvort tveggja er ósatt. Þegar bent var á hið augljósa, að lögregluforinginn færi með ósannindi, og drægi taum sérhagsmuna, á kostnað almannahagsmuna varð fátt um svör. Dreginn var á flot starfsmaður Landsnets (hvað annað),  Ingvar Kári Þorleifsson frá Sólheimum í Svínavatnshreppi. Sá bar við heimsku Stefáns, hann hafi ekki vitað betur eftir tæplega áratugs aðkomu að málinu. Ekkert er hins vegar fjær sanni. Stefán er auðvitað ekki svona heimskur. Þarna er hins vegar falsið og óheiðarleikinn uppmálaður. Draumur núverandi sveitarstjórnarmeirihluta er að sökkva Skagafjarðardölum og hálendinu upp af Skagafirði með úreltum stórvirkjanahugmyndum í Héraðsvötnum og Austari-Jökulsá, bæði við Villinganes og Skatastaði. Þar með væru loksins komin not fyrir línuna, hið risavaxna stóriðjumannvirki Blöndulínu 3. Í framhaldinu kæmi síðan önnur risavaxin 220 kV stóriðjulína frá Varmahlíð til Sauðárkróks og skriður kæmist á blautustu drauma stóriðjusinna um kínverska álbræðsluverksmiðju eða verksmiðjur þeirrar gerðar sem “glöddu” íbúa Reykjanesbæjar fyrir ekki svo löngu. Aðferðin við að borða heilan fíl er nefnilega ekki flókin frekar en flest annað. Þú borðar bara einn bita í einu.

Nýtum sérstöðu Skagafjarðar
Mannlíf og staða í Skagafirði er mjög góð. Kröftug uppbygging á sér stað, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum á mörgum sviðum. Íþróttafólk héraðsins ber hróður þess um land allt. Atvinnuleysi er ekkert. Margra vikna bið er eftir iðnaðarmönnum en það hefur undirritaður nýverið reynt á eigin skinni. Allar hugmyndir um mengandi stóriðjuuppbyggingu með tilliti til hreinleika Skagafjarðar, matvælaframleiðslu, náttúruverndar, losunar gróðurhúsalofttegunda, ferðaþjónustu og fleira og fleira eru því það síðasta sem fólk ætti að láta sér detta í hug. Nær væri að móta þá stefnu að Skagafjörður marki sér sérstöðu með að vera með sem minnst af háspennulínum ofan jarðar.

Ég bið kjósendur sem er annt um náttúru og framtíð Skagafjarðar að hafa þessi mál í huga, áður þeir greiða atkvæði í komandi kosningum.

Hrafn Margeirsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir