Prjónakvöld hjá unglingadeild Blönduskóla
feykir.is
Austur-Húnavatnssýsla
29.09.2014
kl. 11.11
Síðast liðinn vetur voru haldin prjónakvöld í Blönduskóla á Blönduósi, þar sem unglingarnir í skólanum prjónuðu vettlinga til að gefa gestum sínum sem komu í heimsókn vegna Comeníusarverkefni sem skólinn tók þátt í.
Þar sem þónokkur áhugi reyndist fyrir prjónaskapnum mun Anna Margret Valgeirsdóttir kennari við skólann, bjóða upp á prjónakvöld fyrir unglingadeildina tvisvar í mánuði á næstu vikum. Mun hún leiðbeina nemendum sem áhuga hafa við prjón og hekl. Að því er fram kemur á heimasíðu skólans eru uppi ýmsar hugmyndir um verkefni vetrarins.