Prjónasamkeppni Prjónagleðinnar 2020

Prjónagleði hefur verið haldin aðra helgi í júní undanfarin ár á Blönduósi af Textílmiðstöð Íslands en annar laugardagur í júní ár hvert er alþjóðlegi prjónadagurinn. Í ár verður hins vegar breyting á vegna COVID-19 og var ekki annað í stöðunni en að fresta hátíðinni og verður hún haldin 11. – 13. júní að ári.

Prjónaunnendur og áhugamenn/konur þurfa ekki að örvænta því prjónasamkeppnin sem haldin hefur verið samhliða Prjónagleðinni árlega, verður á sínum stað. Í tilkynningu frá Textílmiðstöð Íslands segir: „Ekki þýðir að leggja upp laupana eða prjónana þrátt fyrir þetta og var því ákveðið að halda prjónasamkeppni eins og árin á undan. Eftir ýtarlega umhugsun var þemað „Blanda“ fyrir valinu. Nú átti að prjóna „höfuðfat“ og átti það að vísa til árinnar okkar sem rennur svo tignarlega til sjávar. Íslenskt ullarband varð að vera í prjónlesinu og auðvitað mátti uppskriftin ekki hafa birst áður.“

Til að einfalda keppnina í ár þurftu þátttakendur að senda inn myndir til Textílmiðstöðvarinnar í stað þess að senda sjálft prjónalesið. Myndunum var blandað af handahófi og hafa verið að birtast, ein á dag, á Facebook síðu Prjónagleðinnar og birtustu síðustu myndirnar í dag 10. júní. Fólki gefst svo færi á að setja „like“ við þær myndir sem þeim finnst fallegastar og er það hægt fram á föstudag, 12. júní. Vinningshafar verða að lokum tilkynntir laugardaginn 13. júní, á alþjóðlega prjónadeginum. 

Fólk er hvatt til þess að segja frá samkeppninni svo að sem flestir geti tekið þátt.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir