Ráðherra lætur vinna Vegvísi fyrir vetni og rafeldsneyti

Stífla og inntakshús Gönguskarðsárvirkjunar. Mynd: Valgeir Kárason.
Stífla og inntakshús Gönguskarðsárvirkjunar. Mynd: Valgeir Kárason.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ákveðið að láta vinna Vegvísi fyrir vetni og rafeldsneyti og var sú ákvörðun kynnt á aðalfundi Orkuklasans nýverið, en nýting vetnis og rafeldsneytis var aðalefni fundarins.

Í frétt á vef stjórnarráðsins segir Þórdís Kolbrún að nýting rafeldsneytis muni leika ákveðið lykilhlutverk við að ná markmiði Orkustefnu um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti sem mun ekki hverfur af sjálfu sér: „Eitthvað verður að leysa það af hólmi,“ segir ráðherrann.

„Áhersla okkar á rafeldsneyti endurspeglast nú þegar í aðgerðaáætlun Orkustefnunnar. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að styðja við rannsóknir og uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu. Í öðru lagi að kanna uppbyggingu innviða í tengslum við framleiðslu og flutning á vetni. Og í þriðja lagi að kanna möguleika til útflutnings á grænu vetni til lengri tíma í alþjóðlegu samstarfi. Vinna við þessar aðgerðir er þegar hafin en til að styðja enn frekar við markmiðið hef ég ákveðið að láta vinna sérstakan Vegvísi fyrir vetni og rafeldsneyti.“

Í fyrsta áfanga verður staða mála kortlögð, m.a. í samvinnu við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Roland Berger og Landsvirkjun, en öllum er velkomið að koma á framfæri gögnum, upplýsingum og sjónarmiðum um málefnið. Í síðara áfanga verður haft nánara samráð við alla haghafa um þróun eiginlegs Vegvísis.

„Vegvísirinn er mikilvægur til að draga upp framtíðarsýn til næstu ára um rafeldsneyti, kortleggja hvernig það getur hjálpað okkur að verða óháð jarðefnaeldsneyti og draga fram aðra möguleika slíkrar framleiðslu með tilliti til verðmætasköpunar og samkeppnishæfni Íslands,“ segir Þórdís Kolbrún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir