Rafkerfið ræður ekki við full afköst á gervigrasvellinum

Feykir fékk senda þessa mynd sem sýnir hvítan gervigrasvöllinn á Sauðárkróki.
Feykir fékk senda þessa mynd sem sýnir hvítan gervigrasvöllinn á Sauðárkróki.

Það hefur vakið athygli nú þegar allt er orðið hvítt að hinn nýi gervigrasvöllur á Sauðárkróki bræðir ekki af sér snjóinn eins og menn ætluðu. Skýringarinnar er að leita í rafkerfinu þar sem ekki reynist óhætt að keyra völlinn á fullum afköstum.

Þorvaldur Gröndal, forstöðumaður frístunda- og forvarnamála í Sveitarfélaginu Skagafirði, segir að rafmagnið hafi slegið út vegna ofálags, þegar bræðslan, lýsingin á vellinum og á íþróttavellinum eru kveikt. „Þetta er í vinnslu og skýrist á næstu vikum. Annars er það þannig að ólíklegt er að völlurinn muni ná að bræða svona mikinn snjó af sér, mun alltaf kalla á það að völlurinn verði hreinsaður, hvernig sem það verður svo gert. Bæði notast menn við vélar annar staðar sem og skóflur, þ.e. handmokstur. Það er alla vega mín vitneskja eftir samtöl við vallarstjóra annars staðar á landinu. Bræðslan mun fyrst og síðast tryggja ófrosinn völl sem hægt er að nota þegar búið er að hreinsa snjóinn af.“

Þorvaldur segir að eftir hláku fyrr í vetur hafi vatnið „drenað“ beint í gegn sem sýnir að völlurinn sé alveg þíður. „Við þurfum svo að sjá hvernig þetta verður þegar við getum farið að keyra bræðsluna á fullum afköstum. Þetta er náttúrulega nýtt fyrir okkur og erum við einfaldlega að læra á þetta ennþá,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir