Rannsóknasetur HÍ á Skagaströnd hlýtur styrk

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, sem hefur aðsetur sitt á Skagaströnd, hlaut á dögunum níu milljóna króna styrk vegna verkefnisins Gagnagrunnur sáttanefndabóka. Verkefnið er eitt fjögurra sem hlutu styrk til fjarvinnslustöðva sem veittur er á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.
Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 gerir ráð fyrir styrkjum til fjarvinnslustöðva og eru 300 milljónir króna ætlaðar til verkefnisins á gildistíma byggðaáætlunar. Að þessu sinni voru 30 milljónir til úthlutunar.. Markmið verkefnisins er að koma opinberum gögnum á rafrænt form og að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Alls bárust 16 umsóknir og hlutu fjögur verkefni styrk. Umsóknir voru metnar út frá þáttum eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustigi og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár að því er segir á vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Verkefnin fjögur sem hljóta styrk eru:
- Skönnun og skráning þinglýstra skjala. Sýslumaðurinn á Vestfjörðum hlýtur styrk til að skanna og skrá þinglýst skjöl. Verkefnið verður styrkt um 6 milljónir á ári í þrjú ár, árin 2018-2020, samtals 18 milljónir króna.
- Þjóðfræðistofan á Ströndum. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa hlýtur styrk til að safna upplýsingum og skrá menningararf. Verkefnið verður styrkt um 6 milljónir á ári í þrjú ár árin 2018-2020, samtals 18 milljónir króna.
- Fjarvinnsla á Djúpavogi. Minjastofnun Íslands fær styrk til að skrá minningarmörk. Verkefnið verður styrkt um 9 milljónir króna árið 2018 og 12 milljónir króna árið 2019, samtals 21 milljón króna.
- Gagnagrunnur sáttanefndabóka. Rannsóknarsetur HÍ á Norðurlandi vestra hlýtur styrkinn til að vinna að gagnagrunninum. Verkefnið verður styrkt um 9 milljónir króna árið 2018.
Nánari upplýsingar er að finna á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.