Rauð viðvörun og óvissustig almannavarna vegna ofsaveðurs

Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands.
Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands.

Viðvörunarstig fyrir Strandir og Norðurland vestra hefur nú verið fært úr appelsínugulu yfir í rautt annað kvöld og er þetta í fyrsta sinn sem viðvörun hefur verið færð upp í rautt. Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar á landinu hafa lýst yfir óvissustigi á morgun.

Spáð er norðaustan og síðan norðan roki á Ströndum og Norðurlandi vestra fram eftir degi á morgun og síðar ofsaveðri, (23 til 30 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.

Á vef almannavarna segir að óvissustigi sé lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið. Fólk er hvatt til að fylgjast með frekari upplýsingum frá almannavörnum á Facebook https://www.facebook.com/Almannavarnir/ um veðurspá á www.vedur.is, færð á vegum www.vegagerdin og upplýsingum á textavarpinu, www.textavarp.is.

Skólahaldi hefur víða verið aflýst á morgun. Leik- og grunnskóli í Húnaþingi vestra fellur niður, allir grunnskólar í Austur-Húnavatnssýslu munu fella niður kennslu svo og Leikskólinn Vallaból á Húnavöllum fellur niður. Tónlistarskóli Austur-Húnavatnssýslu hefur aflýst kennslu á Skagaströnd og á Húnavöllum en eftir á að meta stöðuna með kennslu á Blönduósi. Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki verður lokaður og í Árskóla fellur kennsla niður. Þá hefur Sveitarfélagið Skagafjörður tilkynnt að öll íþróttamannvirki í Skagafirði verði lokuð á morgun. Einnig hefur Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra auglýst tilfærslu á prófum á morgun og miðvikudag.

Vegagerðin reiknar með vítækum lokunum á vegakerfi landsins næstu daga og hefur birt töflu yfir þá vegi sem mestar líkur eru á að þurfi að loka. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir