Reiðhallargólfið stenst væntingar

Sagt var frá því í gær að Riddarar norðursins hafi ætlað að taka  gólf reiðhallarinnar Svaðastaða  til skoðunar með tilliti til notkunar þeirra á höllinni.

Forsaga málsins er sú að menn hafa verið misánægðir með gólfið í höllinni undanfarin misseri. Sumir vilja hafa gólfið hart en háværustu raddirnar vilja hafa það mjúkt. Að sögn Brynjólfs Jónssonar hjá Riddurunum er gólfið mun betra en það hefur verið. -Það verður líklega mikil vinna við að halda því góðu en Eyþór hallarstjóri er allur að vilja gerður og ég er bjartsýnn á að honum takist það. Við alla vega bókuðum okkur inni í vetur, sagði Brynjólfur.

Hjá Eyþóri er það að heyra að hann telur gólfið aldrei hafa verið svo mjúkt eins og það er nú. Efnið í gólfinu er leirkent og þjappast mikið við notkun svo mikil vinna liggur í því að rífa það upp. –Við gerum allt til að bæta gólfið segir Eyþór. -Ef það gengur illa að halda gólfinu svona þá munum við setja íblöndunarefni sem ætti að bæta það en ef það gugar ekki verður alveg skipt um jarðveg næsta sumar.

Þá er bara að negla undir og drífa sig á bak.

Fleiri fréttir