Reiðhestar - Kristinn Hugason skrifar

Frá reiðsýningu í Ásbyrgi, 14. ágúst 2004. Riðin breiðfylking um þveran völl. Knapar og hestar frá vinstri eru: Kristinn Hugason á Boðna frá Ytra-Dalsgerði, Sigurbjörn Bárðarson á Sörla frá Dalbæ II, Elsa Albertsdóttir á Gusti frá Syðra-Vallholti, Árni Björn Pálsson á Eyva frá Hamrahlíð, Erlingur Ingvarsson á Ísidór frá Árgerði og Silvía Sigurbjörnsdóttir á Kára frá Búlandi. Ljm: Axel Jón Fjeldsted.
Frá reiðsýningu í Ásbyrgi, 14. ágúst 2004. Riðin breiðfylking um þveran völl. Knapar og hestar frá vinstri eru: Kristinn Hugason á Boðna frá Ytra-Dalsgerði, Sigurbjörn Bárðarson á Sörla frá Dalbæ II, Elsa Albertsdóttir á Gusti frá Syðra-Vallholti, Árni Björn Pálsson á Eyva frá Hamrahlíð, Erlingur Ingvarsson á Ísidór frá Árgerði og Silvía Sigurbjörnsdóttir á Kára frá Búlandi. Ljm: Axel Jón Fjeldsted.

Nú þegar ég slæ þetta greinarkorn inn í tölvuna er síðasti vetrardagur, framundan er sumarið, mér þykir því ekki úr vegi að birta hér lofkvæði til þess eftir eitt af þjóðskáldum okkar; Steingrím Thorsteinsson rektor (1831-1913), þetta er jafnframt lofkvæði til góðra reiðhesta og þeirrar reiðgleði sem þeir kalla fram í brjóstum þeirra er kunna að njóta. Ég birti hér fjögur af sex erindum kvæðisins, Nú er sumar.

Nú er sumar,
gleðjist gumar,
gaman er í dag.
Brosir veröld víða,
veðurlagsins blíða
eykur yndishag.

Veðrahöllin,
vellir, fjöllin,
vötn og fuglar smá
benda blítt og kalla:
Burt með frestun alla,
lagsmenn, leggið á!

Látum spretta’
spori létta,
spræka fáka nú.
Eftir sitja engi,
örvar víf og drengi
sumarskemmtun sú.

Tíminn líður,
tíminn býður
sætan sólskinsdag,
yndi’ er úti’ á grundum,
yndi heim þá skundum
seint um sólarlag.

Hesturinn var fólki á liðnum öldum það sem bíllinn er í dag. Allflestir sem aldur hafa til eru með ökuréttindi nú til dags og nýta sér bíla í ferðum sínum en bara sumir eru bílamenn, sem kallað er, það er að hafa kapp og metnað til að hafa góða og fallega bíla undir höndum, hirða vel um þá og aka þeim fagurlega, ekkert endilega hægt, mjög hratt þess vegna en þó ætíð hæfilega miðað við aðstæður. Val á bílum þarf svo að taka mið af þeim verkefnum sem þeim eru ætluð. Nákvæmlega sama gilti um fyrri tíðar fólk, allir voru með einum eða öðrum hætti háðir hestum, þarfasta þjóninum, en aðeins sumir voru hestamenn.

Til er málsháttur sem hljóðar svo: „Svo er hestur sem hann er hafður“ sem þýðir einfaldlega að hesturinn sýnir af kostum sínum í takt við það hvernig að honum er farið. Í fyrri greinum þessa greinaflokks hef ég fjallað um hlutverk póst-, vinnu- og ferðahesta, vitaskuld bjuggu ýmsir ferðahestanna yfir góðum reiðhestskostum. Fjölhæfni íslenska hestsins í gangi en einnig til ólíkra verkefna var einmitt eitt af inngrónum sérkennum hans og því verðum við að viðhalda. Viss sérhæfni er þó af hinu góða, það mátu fyrri tíðar menn og hvað þá núna þegar bílinn hefur tekið við hlutverki þarfasta þjónsins að mestu og honum fundið nýtt og göfugt hlutverk sem reiðhestur fyrst og fremst.

Reiðhestar hafa lengi verið í miklum metum hjá eiginlegu hestafólki og á hæsta stigi kosta sinna kemst reiðhesturinn í hóp gæðinga. Hrossaræktin í dag hefur að inntaki að rækta hestinn með tilliti til reiðhestskostanna, sköpulagið sem sóst er eftir á svo að þjóna því markmiði auk þess að innibera fagurfræðileg atriði. Stundum er talað um keppniseiginleika sem einhvers konar andstæðu við reiðhestseiginleikanna en svo er ekki, mikið frekar er það spurning um magn, þ.e. afköst og svo náttúrulega hversu hestinum er beitt. Og þá kemur til annar orðskviður sem er: „Veldur hver á heldur“.

Vetrarútreiðar í Heiðmörk. Ljm: Sögusetur íslenska hestsins / Sigurður Sigmundsson.

Vetrarútreiðar í Heiðmörk. Ljm: Sögusetur íslenska hestsins / Sigurður Sigmundsson.

Hlutverk reiðhestins í dag er svo hið sama og í gegnum allar aldir það er að kveikja neista reiðgleði og kapps hjá þeim er kunna með að fara. Tilfinning sem Steingrímur Thorsteinsson lýsir mæta vel í kvæðinu hér framar, einkum þar sem hann segir: „Burt með frestun alla, / lagsmenn, leggið á!“ og svo: „Látum spretta’ / spori létta, / spræka fáka nú.“ Mörg fleiri skáld og hagyrðingar hafa lýst sömu tilfinningu kapps og tilþrifa, s.s. í kvæðinu Spretti eftir Hannes Hafstein sem ég hef vikið að í fyrri grein og svo náttúrulega Fákar Einars Benediktssonar sem allir þekkja og iðulega er vitnað til í ræðu og riti.

Ekkert þori ég að segja um hestamennsku Steingríms Thorsteinssonar en hann var síðrómantískt skáld sem yrkir af fágun um fegurð náttúrunnar o.þ.h., hinir tveir, Hannes og Einar voru hins vegar hörku hestamenn. Það voru einnig Austfirðingar tveir sem uppi voru á ólíkum tímum og ég ætla hér að vitna til en þeir voru báðir skáld sem m.a. komu tilfinningu reiðgleði og sannrar hestamennsku í orð og einnig hvernig skyldi með hesta farið svo sómi væri af. Hér á ég við annars vegar Pál Ólafsson bónda (1827-1905), hann orti feiknin öll um hesta, m.a.  um gæðahryssuna Ljónslöpp, í einu kvæðanna hljóða fyrstu fjórar hendingarnar svo:

Klippt og kemd og þvegin
komin er hún á stallinn.
Hafra mjólk og heyin
henni gefur karlinn.

Hitt skáldið og hestamaðurinn sem ég ætla að geta um hér að síðustu er Stefán Ólafsson (1619-1688) prestur í Vallanesi, hann orti um ýmsa reiðhesta sína, um Penna orti hann þetta:

Penni stár við stall sinn,
stýfir hey með nóg líf,
eyrun hefur allsnör,
augun skær sem glerbaug,
lendaður, svo lágt sund
liggur eftir hans hrygg,
reistur vel með breið brjóst,
bangar fold á skeiðgang.

Ekki verður miklu bætt við slíkan snilldarkveðskap, slæ ég því hér með botn í greinina og óska lesendum gleðilegs sumars.

Kristinn Hugason.

Áður birst í 17. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir