Rekstrarhalli ársins 59 milljónir hjá Svf. Skagafirði
Fjárhagsáætlun Svf. Skagafjarðar fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir 59 miljón króna halla fyrir A og B-hluta sveitarsjóðs þar sem rekstrarhalli A-hluta er alls um 92 milljónir króna.
Rekstrartekjur A-hluta eru áætlaðar 2.716.098 þús.kr. og rekstrargjöld án fjármagnsliða 2.668.199 þús.kr. Fjármagnsliðir 139.899 þús.kr. Rekstrarhalli ársins 92.000 þús.kr.
Samantekin áætlun fyrir A og B-hluta sveitarsjóðs gerir ráð fyrir tekjum að upphæð kr. 3.109.540 þús.kr., rekstrargjöldum án fjármagnsliða 2.956.526 þús.kr. og fjármagnsliðum 212.014 þús.kr. Rekstrarhalli ársins 59.000 þús.krónur.
Handbært fé frá rekstri er áætlað að verði 40.374 milljónir króna í A-hluta, en 193.686 milljónir króna í samstæðunni í heild.
Fjárfesting samstæðunnar er áætluð samtals 152 milljónir króna, sala eigna 39 milljónir króna, afborganir lána 244 milljónir króna og ný lántaka 161 milljónir króna.
Á fundi sveitarstjórnar sagði Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar að meirihlutinn hafi ekki sýnt pólitíska forystu með stefnumótun og forgangsröðun. Þess vegna er gerð fjárhagsáætlunar ómarkviss að hennar mati og ber þess merki að svokölluð rekstrarnefnd verði sett í það að endurskoða hana strax á nýju ári. -Fjárhagsáætlun er ekki bara rammi um útgjöld og tekjur, heldur er hún stefna um þjónustu og framkvæmdir og leggur línurnar fyrir það öryggi sem börn og fölskyldur í sveitarfélaginu búa við næsta árið. Meirihlutinn hefur ekki sýnt pólitíska forystu við gerð áætlunarinnar, áætlunin hefur tekið miklum breytingum milli 1. og 2. umræðu og án þess að allar nefndir hafi tekið áætlunina til umfjöllunar, segir m.a. í bókun Grétu Sjafnar. Gerði hún grein fyrir því að hún sæti hjá við afgreiðslu á fjárhagsáætlun 2011.
Stefán Vagn Stefánsson oddviti framsóknarmanna var á annarri skoðun og sagði fjárhagsáætlunina fyrir árið 2011 vera unna við afar erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi þó ljóst væri að mikil vinna væri framundan í að ná fram enn frekari hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og mikilvægt að breið samstaða náist um þá vinnu. -Við fjárhagsáætlunargerðina hefur verið lögð áhersla á að verja grunnþjónustu þrátt fyrir minni tekjur og kostnaðarhækkanir, sagði Stefán.
-Sveitarfélögin í landinu hafa ekki farið varhluta af bágri stöðu ríkissjóðs. Áætlaður samdráttur á framlögum jöfnunarsjóðs til Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemur til að mynda um 75 milljónum króna á milli áranna 2010 og 2011. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir rekstrarbata í fjárhagsáætlun hjá sveitarfélaginu á milli ára, segir í bókun sem Stefán Vagn lagði fram frá meirihlutanum.
Þrátt fyrir niðurskurð í rekstri sveitarfélagsins er gert ráð fyrir talsverðum framkvæmdum á næsta ári, fyrir alls um 90 milljónir króna og m.a. margvíslegum viðhaldsframkvæmdum fyrir um 55 milljónir króna. Stærsta einstaka verkefnið eru endurbætur á húsnæði Árskóla.
Ákveðið hefur verið að hefja veituframkvæmdir í Sæmundarhlíð fyrir um 40 milljónir króna strax næsta sumar og fráveitu upp á 22 milljónir. Samanlagt nema framkvæmda og viðhaldsáætlanir sveitarfélagsins og stofnanna þess um 207 milljónum króna á árinu 2011.
Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndaflokksins sagði það vera vonbrigði að verið sé að afgreiða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Skagafjarðar. -Áætlunin ber með sér að hástemmd kosningaloforð Framsóknarflokksins um miklar byggingaframkvæmdir voru algerlega innistæðulausar. Frjálslyndir leggja til að hagrætt verði í rekstri sveitarfélagsins sem frekast er unnt til þess að tryggja framtíðarmöguleika en við blasir t.d. að fækka sviðum og sviðstjórum sveitarfélagsins, segir í bókun Sigurjóns.
Sjálfstæðismenn í sveitarstjórn Skagafjarðar voru ekki hrifnir af fjárhagsáætluninni og lýstu yfir miklum vonbrigðum með hana, þar sem ekki hefur tekist að skila hallalausri áætlun, sem hlýtur að vera grundvallarmarkmið við fjárhagsstjórn hvers sveitarfélags, eins og segir í bókun þeirra en þar segir einnig að fyrirliggjandi áætlun ber þess merki að ekki hafi verið nægur tími gefinn við undirbúning hennar, þar sem hagræðingarforsendur hafa ekki verið útfærðar á fullnægjandi hátt og eru því að hluta byggðar á óskhyggju meirihlutans. Sjálfstæðismenn ítrekuðu nauðsyn þess að vinna þrotlaust að því að lækka útgjaldaliði sveitarsjóðs ásamt því að styrkja tekjumöguleika með eflingu atvinnulífs og lýstu sig reiðubúna að koma að þeim verkefnum með meirihluta sveitarstjórnar af fullum heilindum.
Fjárhagsáætlun 2011 var svo borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum, fjórir sátu hjá.