Rithöfundarnir Guðni, Hjálmar og Sigmundur Ernir í Kakalaskála á sunnudag

Búast má við því að öllum skammdegisdrunga verði ýtt til hliðar næstkomandi sunnudag, 11. desember, þegar þeir Guðni Ágústsson, Hjálmar Jónsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson segja frá og lesa upp úr bókum sínum í Kakalaskála klukkan 15 að staðartíma. Í upphafi mun Geimundur Valtýsson þenja nikkuna en í samskonar samsæti í fyrra fékk hann að gjöf forláta glæsihryssu, Sóley, fyrir að hafa skemmt landi og þjóð í áratugi.

Hjálmar mætir með bók sína Stundum verða stökur til, sem Hólar gefur út, sem fengið hefur feikilega góðar viðtökur landsmanna. Bragsnillingurinn Hjálmar fer á kostum í leiftrandi kveðskap og frásögnum og skemmtileg atvik og viðburðir verða ljóslifandi og samskipti við fólk í gleði og gáska kitla hláturtaugarnar svo um munar, eins og segir í umsögn bókarinnar. Einnig er í bókinni dýpri kveðskapur en rauði þráðurinn er þó alltaf hjartahlýjan og húmorinn

Sigmundur Ernir verður með sína bók meðferðis, Spítalastelpan, sem er uppvaxtarsaga Sigurvinu Guðmundu Samúelsdóttur, eða Vinsý eins og hún er oftast kölluð. Til gamans má nefna að hún er m.a. móðir Samúels Arnar Erlingssonar, hins kunna íþróttafréttamanns hér áður og þáttagerðarmanns. Spítalastelpan var hún kölluð stelpan sem veiktist af berklum í hrygg á Ströndum Norður og var fyrstu ár sín að mestu reyrð niður í rúm á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hún byrjaði ekki að ganga fyrr en á sjöunda ári, sigldi heim þar sem faðir hennar var dáinn og móðirin búin að yfirgefa hana í huganum. En hún bjó yfir einstökum lífsþorsta og vongleði.

Loks skal kjörsonur Skagafjarðar nefndur, Guðni Ágústsson, en hann er löngu orðinn goðsögn í lifanda lífi og annálaður sagnamaður. Guðni og Guðjón Ragnar Jónasson taka höndum saman í nýrri bók Flói bernsku minnar, en þeir voru einnig á ferðinni í fyrra með bókina Guðni á ferð og flugi. Það er bókaútgáfan Bjartur Veröld sem gefur út bækur þeirra Guðna og Sigmundar Ernis.

Guðni á ferð um Flóann

Guðni Ágústsson ólst upp í Flóanum upp úr miðri síðustu öld í sextán systkina hópi – með annan fótinn í fornum tíma. Hann sest upp í bíl og býður lesandanum í ferð á vit æskustöðvanna í fortíð og nútíð segir sögur af fólki, jafnt kynlegum kvistum sem virðulegum stórmennum. Hann er einlægur í frásögnum sínum en glettnin er aldrei langt undan. Og merkja má söknuð eftir veröld sem var, þegar hugur var í mönnum og sveitirnar að styrkjast.

Feykir fékk leyfi til að birta kafla úr bókinni svo nú er um að gera að njóta.

Við ökum úr hlaði Laugardæla, áfram og förum þangað þar sem langafi minn endaði sinn búskap á örreytiskoti, Svarfhóli, sem stóð á golfvellinum sem einmitt er staðsettur á gömlum túnum Laugardæla. Langafi minn, Björn Björnsson, átti merkilegt lífshlaup og varð allra karla elstur. Foreldrar hans, þau Björn Þorvaldsson og Ásta kona hans, komu að Læk í Hraungerðishreppi frá Auðsholti í Biskupstungum. Þetta fólk var efnað og bar sig að í Flóanum að höfðingjasið. Gamli Björn reið einn allra bænda í Hraungerðishreppi á Þingvöll 1874 að fagna nýrri stjórnarskrá. Lækjarbræður voru fjórir, miklir hestamenn og riðu út á sunnudögum, sem var sagt mont, og kjaftasögurnar sögðu þá moka út úr fjósinu ríðandi. En veikindi eyðilögðu líf og hamingju þessa fólks; þau fengu lömunarveiki sem lék fjölskylduna grátt. Björn eignaðist Þorvald afa minn í lausaleik, með Sólveigu Guðmundsdóttur frá Krókskoti en hún var vinnukona á Læk, eldri en Björn og hafði áður eignast tvö börn í lausaleik. Þorvaldur fylgdi föður sínum og því má segja að langafi hafi verið einstæður faðir. Langafi giftist síðar Guðrúnu Magnúsdóttur á Bollastöðum og fór að búa þar. Með Guðrúnu eignaðist hann mörg börn, alls átta krakka og Þorvaldur fylgdi með. Björn var hár maður vexti en fremur grannur, bar mikið hár og skegg, fölleitur og skarpleitur með blá augu. Mildur var hann í geði og talinn greindur maður en svo lýsti faðir minn afa sínum. En fátæktin svarf að heimili þeirra Guðrúnar og börnin fóru mörg í fóstur og heilsuleysi ásótti Björn. Honum varð alvarlega á í messunni, eignaðist barn fram hjá Guðrúnu sinni með stúlku sem var lengi vinnukona þeirra eða hálfgerð fósturdóttir. Yfirvöldin urðu að skerast í leikinn og fjarlægðu Guðlaugu þessa af heimilinu. Hún fór að Hvammi í Ölfusi og þar ólst Jón sonur þeirra upp hjá Steindóri frænda sínum. Af þessum frænda mínum er það að segja að hann varð myndarmaður norður á Akureyri og af honum er mikil saga. Hann var skipstjóri og sonur hans Steindór stýrði líkt og pabbinn Dranginum sem í fjölda ára annaðist póstferðir um Eyjafjörð og út í Grímsey. Þeir feðgar voru báðir taldir góðir sæfarar og sómamenn hinir mestu.

Gamli bærinn á Brúnastöðum sem var sjötíu fermetrar.
Hann lét Ágúst Þorvaldsson byggja árið 1932 en þar
var búið til 1956.

Sem ungur maður vann ég hjá hinum fræga staðarsmið Selfoss, Sigfúsi Kristinssyni, og sterklega er greypt í minni mitt það sem ég heyrði af Birni langafa mínum þegar ég vann við smíðar fyrir vin minn Sigfús. Þá var þar einnig gamall bóndi, Þorvarður Þórðarson í Votmúla, en Björn hafði farið í hornið til Katrínar í Votmúla sem átti Gissur fyrir mann, en þau bjuggu á hinum bænum í Votmúla. Eitt sinn segir Þorvarður við mig: „Mér var illa við hann langafa þinn, hann tók fram hjá henni Guðrúnu sinni sem var afbragðs manneskja.“ Þegar ég kom heim að Brúnastöðum segi ég við pabba að „honum Þorvarði í Votmúla sé illa við hann Björn afa þinn“. „Nú, af hverju?“ spyr pabbi. Ég segi eftir honum að Björn hafi haldið fram hjá henni Guðrúnu sinni og átt krakka í lausaleik. Nú þykknaði verulega í föður mínum og hann segir með sinni fallegu og djúpu rödd: „Hvern andskotann er hann Þorvarður að rífa kjaft? Hann ætti nú frekar að tala um hann afa sinn, hann Þorvarð í LitluSandvík, sem réð svo illa við fýsnir holdins að hann skreið á ísspöng yfir Ölfusá til að halda við konu nokkra í Ölfusinu, allt þar til hún Svanhildur, kona hans, greip í taumana, söðlaði hest, sótti viðhaldið og flutti það inn á heimili sitt í LitluSandvík.“ Enn lifa fræg ummæli hennar er hún kom svo fyrir sig orði: „Það er nú betra að eiga hann Þorvarð minn hálfan heldur en að missa hann í Ölfusá.“

Guðni er eitt 16 systkina og var því nóg að gera á því stóra heimili sem Brúnastaðir var. Lengi vel bjó fjölskyldan í 70 fermetra húsi með engum rafmagnstækjum og því ansi þröngt á þingi. Guðni fjallar um foreldra sína í bókinni og fer hér lýsing hans á móður sinni:

Ég held að rétt sé að spyrja tveggja spurninga: Hver var Ingveldur Ástgeirsdóttir og hver voru afrek hennar í lífinu? Hún var ein af þessum kyrrlátu konum í sveit, húsmæðrum sem unnu sitt verk í hljóði og unnu á við þrjá, vöknuðu fyrstar og sofnuðu seinastar á kvöldin. Húsfreyjurnar sem notuðu hverja ferð til að taka til; hún var alltaf að, þótt mörgum þætti hún aldrei fara óðslega að neinu og ekki hækkaði hún róminn. Bjó hún yfir einhverju jafnaðargeði sem var yfirnáttúrulegt. Í hógværð sinni átti hún fallegasta brosið á hverri ljósmynd og var eins og stórstjarna. Nágrannar hennar og vinir vissu líka að hún átti skæran hlátur og var skemmtilegust allra á góðri stund, ekki síst í litlum hópi og meðal frændfólks og vina.

Svona sá Sigmund Jóhannsson, sem lengi var skopmyndateiknari
Morgunblaðsins, litla gamla bæinn á Brúnastöðum.
Tvímennt var í öllum rúmum, börnin orðin tólf og
foreldrarnir sváfu með yngstu börnin.
Ekki má gleyma Snata sem svaf sínum væra blundi í anddyrinu.

Halldór Laxness segir frá því í bók sinni Í túninu heima að einu sinni hafi hann verið á ferð í Kaupmannahöfn og setið þar veislu hjá Íslendingum. Áður en borð voru upptekin reis ung kona úr sæti og rétti honum tímarit þar sem mynd af móður hans var prentuð á forsíðu, en hún var þá látin fyrir fjórum árum. Frúin bað hann að segja veislugestum eitthvað frá móður sinni. Halldór segir orðrétt: „Ég hafði reyndar löngu gleymt þessu atviki og veislunni sjálfri að mestu, en var minntur á það á dögunum. Ég vitna til þess hér eins og frásagnar um altannan mann. Mér var sagt að fyrst hefði ég horft lengi þegjandi á myndina í sæti mínu og loks þegar ég stóð upp hafi ég ekki sagt annað en þetta:

Móðir Guðna, Ingveldur Ástgeirsdóttir á Brúnastöðum.

Í rauninni þekkti ég aldrei þessa konu. Hún var huldukona. En mér þótti vænna um hana en aðrar konur.“ Svo bætir hann við: „Hún var með öllu laus við tilfinningasemi, líklega af því hvað hún var mikil tilfinningamanneskja og lét aldrei heyrast til sín vorkunnsemi né æðruorð, en sagði stundum stutta setningu um mann eða atburð svo ekki virtist miklu þar við að bæta. Viðkvæmnisvafningur í tali manna held ég hafi verkað á hana eins og væri verið að rífa striga.“

Þegar Halldór Laxness skrifaði Brekkukotsannál var bókin óður um „huldufólkið“, hið óbreytta „óspillta“ fólk. Í minniskompur sínar skráði hann þennan vísdóm um tvær manngerðir: „Tvennskonar Íslendingar eru til, hinir extróvertu fantastísku, sem eru síkjaftandi og símontandi sig, og setja svip á þjóðfélagið og stjórna hólfélaginu – og svo er það huldufólkið ... sem hefur flest það er menn má prýða, en er með öllu laust við sérframtrönulegheit en það er kjarninn bakvið, það element sem því hefur ráðið að mannlíf er á Íslandi enn, það fólk sem vinnur öll afrek en aldrei montar sig og ekkert heyrist um og hólfélagið mun aldrei uppgötva.“ Þessar lýsingar gætu allt eins átt við móður mína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir