Óvænt uppákoma á bókarkynningu í Kakalaskála :: Geirmundur Valtýsson fékk glæsta hryssu að gjöf

Guðni Ágústsson og Geirmundur Valtýsson með glæsihryssuna Sóley á milli sín. Mynd: Hjörtur Geirmundsson.
Guðni Ágústsson og Geirmundur Valtýsson með glæsihryssuna Sóley á milli sín. Mynd: Hjörtur Geirmundsson.

Það var glatt á hjalla í Kakalaskálanum á sunnudaginn, þeir Guðni Ágústsson og Guðjón Ragnar Jónasson boðuðu til hátíðar á messutíma til að kynna bók sína Guðni á ferð og flugi. Hins vegar var hátíðin tveir hálfleikir, Geirmundur Valtýsson var mættur og falið að spila á harmonikkuna og stýra söng sem hann gerði. En hið óvænta var að í upphafi kynnti Guðni að fram færi heimsviðburður því aðdáendur Geirmundar ætluðu að hefja samkomuna á að heiðra Geirmund fyrir að hafa spilað og sungið fyrir þjóðina í 65 ár og þar af með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar í 50 ár eða hálfa öld.

Guðni ávarpaði þau Mínervu og Geirmund og sagði að vinir og aðdáendur vildu þakka þeim hjónum fyrir að hafa gefið þjóð sinni svo stóra hlutdeild í Geirmundi sem hefði með blíðum söng leitt varir að vörum og vanga að vanga hinna ástföngnu og þúsundir hjónabanda hefðu orðið til undir sveiflu Geirmundar. Því næst leiddu þeir Bjarni Maronsson og Kolbeinn sonur hans inn á gólfið í Kakalaskála glæsta hryssu, Sóley, undan Glaum frá Geirmundarstöðum sem er hátt dæmdur stóðhestur úr ræktun Geirmundar. Mikil fagnaðarlæti brutust út og hrifust menn af glæsihryssunni. Því næst sagði Guðni frá því að séra Hjálmar Jónsson hefði lagt niður störf við að elta golfkúlu á Spáni og ort þakklætisljóð til Geira:

Hann þreytist ei böll á að bruna
bestur með harmonikkuna
og hefur með drift
síðpilsum svipt
lengur en elstu menn muna.

Við hrífumst af hljómþýðum dyni
frá heiðruðum félaga og vini.
Hún er glæst þessi höll
hér gleðjumst við öll
með Geirmundi Valtýssyni.

Það fer ekki á milli mála
að mæti hver einasta sála
Því Guðni og Geiri
og gæðingar fleiri
nú skemmta í Kakalaskála.

Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í Húnaþingi kvaddi sér hljóðs og flutti Geirmundi eftirfarandi kveðju:

Ungur steigstu upp á svið.
Urðu dansar fleiri.
Ástir kvikna ólgum við,
enda Rómó Geiri.

Ávallt fjörið er við völd,
atlot ná að beði.
Hartnær muntu í heila öld
halda uppi gleði.

Unaðsstundir þökkum þér,
því af Glaumsins kyni,
gæðahryssu gefum vér
Geira Valtýssyni.

Í síðari hálfleik kynntu þeir Guðjón Ragnar, menntaskólakennari, og Guðni bókina en Guðjón skrásetur bókina í skemmtilegum ferðum þeirra félaga um landið. Við sögu koma milli fimmtíu og sextíu persónur með sterka sögu, húmor fólk sem er bæði með lífsskoðanir og hefur reynt margt í lífinu. Einn þeirra sem við sögu koma í bókinni er Axel Rúnar Guðmundsson á Valdarási í Vestur Húnavatnssýslu. Skagfirðingar fengu gæsahúð af undrun við fyrstu yfirlýsingu Rúnars sem sagðist vera hinn týndi sonur Skagafjarðar, hefði komið undir í hlöðunni á Hólum og væri sonur Sigga Vill sem margir þekktu. Axel Rúnar var kominn til að þakka Guðna sérstaklega fyrir að hafa heimsótt sig óvænt í fyrravor. Hann sagðist hafa séð velgjörðarmann sinn, séra Róbert Jack, ganga með þeim Guðna og Guðjóni að húsi sínu svo hvarf sjónin. En þennan morgun svipti hann hulunni af leyndardómi sálar sinnar, eineltinu og harmi barnsins sem skaðaði sig alvarlega og lenti í höndum Kára Stefánssonar, sem þá var heimilislæknir á Hvammstanga, en hann kallaði Róbert Jack út til að hlynna að drengnum eftir aðgerðina. Síðar fór presturinn með Axel Rúnar til Skotlands og hann lék með Mancester United og skoraði mark og fór síðar með Albert Guðmundssyni til Frakklands. Það var magnað að hlusta á lífssögu Axels Rúnars. Rúnar færði Guðna gjafir, trefil Manchester United og gerði Guðna að heiðursfélaga í klúbbi sem verið er að stofna. Jafnframt arfleiddi hann Guðna að viskípela sem Róbert Jack gaf honum og mælti fyrir að hann skyldi alltaf standa barmafullur af skosku viskíi. Bók þeirra félaga var vel fagnað og rétt er að ljúka þessari umfjöllun með kveðju Gunnars Rögnvaldssonar á Löngumýri sem lýsir tilurð bókarinnar vel:

Höfðingjar á hringferð tóku hús á tíðum.
Úr Guðna sögur gengu stríðum,
Guðjón skráði á mörgum síðum.

Til að kynna afurðina er því mættur.
Úr grasrótinni glensi bættur,
Guðni virðist hvergi hættur.

Ævisögur óteljandi út hann gefur.
Markað sporin mörgu hefur,
maðurinn sem aldrei sefur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir