Rómantík og næturkyrrð í Hóladómkirkju

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona og Elísabet Waage hörpuleikari munu halda Sumartónleika í Hóladómkirkju þann 4. júlí kl. 14.

Samstarf Bjargar og Elísabetar hófst haustið 2006 og hafa þær síðan haldið

fjölmarga tónleika víða um land. Þær hafa komið fram m.a. á Sumartónleikum

í Akureyrarkirkju, Listasumri á Akureyri og víða á Vestfjörðum. Tvö

síðustu ár hafa þær haldið tónleika í Strandarkirkju í tilefni af

Maríumessu. Árið 2008 voru þær fulltrúar Íslands á norrænu

tónlistarhátíðinni NICE á Englandi þar sem þær héldu tónleika með

íslenskri efnisskrá og komu fram á BBC Radio. Þetta er í fjórða árið í röð

sem þær halda tónleika í Sumartónleikaröð Hóladómkirkju.

Rómantík og næturkyrrð setja sterkan svip á efnisskrána sem samanstendur

af  íslenskum þjóðlögum í útsetningu Michael’s Clarke, sönglögum, m.a.

eftir Elísabetu Einarsdóttur, Árna Thorsteinsson, Sigfús Halldórsson,

Sigvalda Kaldalóns og Jón Leifs ásamt verkum eftir Schubert og Caccini.

Hér fyrir neðan eru frekari upplýsingar um flytjendur.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona stundaði fyrst söngnám við

Tónlistar-skólann á Akureyri hjá Michael Jóni Clarke á árunum 1991-1996 en

síðan framhaldsnám í óperusöng við óperu- og einsöngvaradeild Konunglega

tónlistarháskólans í Manchester á Englandi. Hún lauk þar námi vorið 1999

með sérstakri viðurkenningu fyrir framúrskarandi túlkun á þýskum

ljóðasöng.

Hún varð fyrst íslenskra listamanna til að hljóta British Counsil

námsstyrk til framhaldsnáms í Englandi. Frá árinu 2000 til 2007 bjó hún og

starfaði í Lundúnum og naut þar leiðsagnar hins virta söngkennara Dr. Iris

Dell’Acqua.

Björg hefur haldið einsöngstónleika og komið fram sem einsöngvari við

fjölda tækifæra hér á landi sem og víða í Evrópu. Hún hefur sent frá sér

þrjár hljómplötur, Það ert þú! Eyjafjörður – ljóð og lag árið 2000,

Himnarnir opnast- jólaperlur árið 2006 og Gullperlur árið 2007. Þá syngur

hún lög á hljómplötunni Horfinn dagur, sem er útgáfa í tilefni

aldarminningar Árna Björnssonar tónskálds, og kom út árið 2007. Þá hefur

Björg hljóðritað bæði fyrir útvarp og sjónvarp á Íslandi.

Flutningur kirkjulegrar tónlistar hefur skipað stóran sess á söngferli

Bjargar.  Hún hefur m.a. sungið einsöngshlutverk í Sálumessu Verdis,

Sálumessu Brahms, Messíasi eftir Handel, Gloriu eftir Vivaldi, Jóaóratoríu

Saint-Saens, Messe Solennelle eftir Gounod og Stabat Mater eftir

Pergolesi.

Óperuhlutverk Bjargar eru Elsa í Lohengrin eftir Wagner, Electra í

Idomeneo eftir Mozart, Aida úr samnefndri óperu Verdis og Kostelnicka í

Jenufa eftir Janácek.

Björg var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2007

Elísabet Waage stundaði nám í píanó- og hörpuleik við Tónlistarskólann í

Reykjavík og lauk píanókennaraprófi þar 1982. Þá nam hún hörpuleik við

Konunglega Tónlistarháskólann í den Haag í Hollandi. Kennari hennar var

hinn virti hörpuleikari og kennari, Edward Witsenburg. Árið 1987 lauk hún

náminu með einleikara-og kennaraprófi.

Að loknu námi bjó og starfaði Elísabet í Hollandi. Hún sótti Ísland þó oft

heim og hélt tónleika í báðum löndum, auk margra annarra Evrópulanda. Hún

hefur spilað í kammermúsíkhópum s.s. Kammersveit Reykjavíkur, Caput-hópnum

og verið gestur Cikada í Noregi. Eins hefur hún leikið í ýmsum

sinfóníuhljómsveitum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Noord-Nederlands

Orkest í Hollandi. Hún hefur komið fram sem einleikari með Kammersveit

Reykjavíkur, Íslensku hljómsveitinni, Autunno í Hollandi, Avanti í

Finnlandi og Århus Sinfonietta í Danmörku. Elísabet hefur gert upptökur

fyrir útvarp og sjónvarp og leikið inn á geisladiska. Þeirra á meðal eru

diskar með Peter Verduyn Lunel, flautuleikara (Arsis 1994) og með Gunnari

Kvaran, sellóleikara (Sonet 2004). Fyrir jólin (2008) kom út diskur hennar

og Laufeyjar Sigurðardóttur, fiðluleikara; SERENA

Síðan haustið 2002 hefur hún verið hörpukennari við Tónlistarskóla Kópavogs.

Tvívegis hefur Elísabet þegið boð um að spila á Alþjóðlegu hörpuþingi

(World Harp Congress), í Kaupmannhöfn árið 1993 og í Amsterdam 2008.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir