Rótgrónu og mikilvægu safnastarfi raskað fyrir skammtímagróða?

Minjahúsið á Sauðárkróki. Mynd:PF
Minjahúsið á Sauðárkróki. Mynd:PF

Stjórn Félags fornleifafræðinga harmar ákvörðun Sveitarfélags Skagafjarðar um að fórna aðsetri Byggðasafns Skagfirðinga fyrir einkarekna sýningu í hagnaðarskyni. Þessar tilfærslur sveitarfélagsins eru vanvirðing við starfsemi safnsins, rannsóknir þess, starfsmenn, sýningar og safnkost.

Byggðasafn Skagfirðinga er öflugasta safn landsins á sviði fornleifarannsókna og hefur fornleifadeildin hlotið marga tugi milljóna íslenskra króna til rannsókna, bæði úr rannsóknarsjóðum hérlendis og erlendis frá. Fornleifarannsóknir á vegum safnsins hafa meðal annars laðað að erlenda vísindamenn, skipt miklu máli fyrir skilning okkar á byggðasögu og varpað nýju ljósi á sögu kirkna og greftrunar.

Byggðasafnið sem er eitt af elstu minjasöfnum landsins hefur starfað af krafti í rúmlega 50 ár og nú á að flytja starfsemi þess í bráðabirgðahúsnæði. Stjórnin tekur undir með Félagi íslenskra safnafræðinga í því að sveitarfélaginu beri skylda til að tryggja safninu viðunandi húsnæði sem eigandi safnsins. Flutningur á heilu safni og starfsemi þess raska verulega öllu almennu safnastarfi og þeim rannsóknum sem safnið stendur að. Er það von okkar að sveitarstjórnin endurskoði þessar hugmyndir í ljósi þeirra verðmæta sem eru fólgin í starfsemi byggðasafnsins. 

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir