Rúmar tvær milljónir til Norðurlands vestra
Þrjú verkefni á Norðurlandi vestra hlutu styrk úr Þjóðhátíðarsjóði en þrítugasta og fjórða og jafnframt síðasta almenna úthlutun hans fór fram í gær. Alls bárust 273 umsóknir um styrki að fjárhæð samtals um 418 milljónir króna. Úthlutað var 59 styrkjum að fjárhæð samtals 35 milljónum króna til verkefna á næsta ári.
Júlíus Már Baldursson á Vatnsnesi hlaut 1 milljón króna styrk vegna kynningarstarfs og ræktunar íslensku landnámshænunnar.
Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, Lára Magnúsardóttir, forstöðumaður, hlaut 600 þúsund króna styrkt til að afla heimilda um söfnun viðtala sem tekin voru við Vestur-Húnvetninga á 7.-10. áratug síðustu aldar, færa hljóðupptökurnar af bandi á stafrænt form til að tryggja varanlega varðveislu þeirra, skrá viðtölin í gagnagrunn og gera þau aðgengileg fræðimönnum og almenningi gegnum internetið.
Ragnheiður Traustadóttir hlaut 500 þúsund króna styrk til að halda áfram fornleifagrefti á Kolkuósi í Skagafirði sumarið 2011.
Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf.