Rúmlega níu hundruð sáu Emil í Kattholti
Á sunnudaginn lauk sýningum á Emil í Kattholti í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks. Upphaflega voru auglýstar átta sýningar og átti þeim að ljúka á þriðjudaginn fyrir rúmri viku.
Vegna góðrar aðsóknar var bætt við þremur sýningum um síðustu helgi og þegar fór að líða á helgina og uppselt var orðið á síðustu sýningu var fjórðu aukasýningunni bætt við klukkan sex á sunnudag og voru því tvær sýningar þann dag, með örstuttu hléi á milli.
Áhorfendur voru alls 909 og var uppselt á átta sýningar af þeim tólf sem auglýstar voru. Þátttakendur í uppfærslunni voru 32, þar af 16 leikarar og fóru sumir með fleiri en eitt hlutverk eða voru bæði að leika og starfa bak við tjöldin. Hópurinn samanstóð af reynsluboltum og nýliðar, en leikstjóri var Páll Friðriksson sem starfað hefur með Leikfélaginu í aldarfjórðung og áður leikstýrt þar barnaleikriti.
Eftir að hafa heimsótt leikfélag Ólafsfjarðar á sl. þriðjudag og séð þar sýningu á Brúðkaupi eftir Guðmund Ólafsson mun verða haldið lokahóf á föstudaginn en síðan taka félagsmenn sér gott hlé áður en æfingar hefjast á sæluvikuverkinu sem sýnt verður vorið 2015. Að sögn Sigurlaugar Dóru Ingimundardóttur, formanns leikféalgsins, er ekki búið að taka ákvörðun um hvað verk það verður, en það verður gert mjög fljótlega.