Rúnar Gísla býður sig fram til gjaldkera VG

Rúnar Gíslason, lögreglumaður á Norðurlandi vestra, hefur tilkynnt framboð sitt í embætti gjaldkera VG á komandi landsfundi sem haldið verður 18. – 20. október nk. „Ég hef haft mikla ánægju af að starfa innan VG til þessa og trúi að ég geti komið að frekara gagni. Það er ástæðan fyrir þessari framhleypni,“ segir Rúnar í tilkynningu sinni.

Allt frá því að Rúnar gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna - græns framboðs hefur hann gengt embætti formanns í sínu svæðisfélagi, setið í stjórn VG á landsvísu og verið í framboði til Alþingiskosninga og sveitastjórnarkosninga ásamt því að hafa sinnt nefndarstörfum í nafni VG. „Hvort það hafi verið heillaspor fyrir einhverja aðra en mig sjálfan er ekki mitt að meta, heldur legg ég það í dóm félaga mína einu sinni enn. Hlakka til að sjá ykkur á landsfundi!“

Auk Rúnars hefur Ragnar Auðunn Árnason einni boðið fram krafta sína í embættið sem Una Hildardóttir hefur gegnt síðastliðin fjögur ár. Hefur hún tilkynnt framboð sitt til ritara flokksins líkt og  Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari í Neskaupstað.

Edward Hákon Huijbens, varaformaður flokksins mun ekki gefa kost á sér áfram og hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tilkynnt framboð til varaformanns.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir