Rúnar Páll og Anna skyndihjálparfólk ársins

Rauði krossinn á Íslandi tilnefnir árlega skyndihjálparmann ársins úr innsendum ábendingum frá almenningi. Einn einstaklingur hlýtur nafnbótina skyndihjálparmaður ársins en auk þess eru þrír einstaklingar tilefndir til sérstakrar viðurkenningar. Tilgangurinn með tilnefningu skyndihjálparmanns ársins er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.
Í ár var Anna Árnína Stefánsdóttir, Steinhólum í Viðvíkursveit, tilnefnd fyrir að bregðast hárrétt og yfirvegað við þegar maður hennar, Brynleifur Siglaugsson, lenti í hjartastoppi í Hofsóslaug sl. vor. Guðný Zoëga, formaður Skagafjarðardeildar, segir að Anna hafi hins vegar lagt mikla áherslu á það að hún hafi ekki verið ein við björgunina heldur hafi hún verið gerð í samstarfi við starfsfólk og aðra gesti laugarinnar. Skagafjarðardeild ákvað því að veita Rúnari Páli Hreinssyni, starfsmanni laugarinnar, einnig viðurkenningu. Er þetta annað árið í röð sem Skagfirðingur hlýtur þessa viðurkenninguna en í fyrra var það Pétur Örn Jóhannsson á Sauðárkróki sem eining brást hárrétt við og bjargaði vinnufélaga sínum sem hafði fengið hjartastopp.
Útbreiðsla og kennsla skyndihjálpar er ein af grunnáherslum Rauða krossins og býr Skagafjarðardeild vel hvað það varðar. Fjórir skyndihjálparkennarar eru á vegum Rauða krossins í Skagafirði og héldu þeir 53 námskeið bæði innan og utan héraðs á sl. ári og sóttu hátt í 800 manns námskeiðin. Þetta var nokkur fjölgun miðað við árið á undan að sögn Guðnýjar. „Það virðist því sem vakning sé í að vinnustaðir standi fyrir skyndihjálparnámskeiðum fyrir starfsmenn sína og er það frábært, segir hún og bendir á að bæði Anna og Rúnar fari reglulega á námskeið með vinnustöðum sínum.
Rúnar segir að atburðarásin hafi verið sérstök að ýmsu leyti. Brynleifur hafi farið ofan í pottinn og legið, að honum sýndist, eðlilega en Rúnar var í afgreiðslunni og var við að neitt óeðlilegt væri í gangi. Það var ekki fyrr en Anna kemur ofan í pottinn líka að hún verður þess áskynja að eitthvað væri að eiginmanninum. Hún kallar eftir hjálp og hefja þau Rúnar þegar björgunaraðgerðir sem að lokum skila árangri. Rúnar segist hafa upplifað ótrúlega stund þegar Brynleifur kom til baka úr dáinu, en það gerðist hægt og rólega. Auk þess að blása og hnoða var hjartastuðtæki beitt sem gaf Brynleifi tvisvar stuð. Rúnar segir skyndihjálparnámskeið gríðarlega mikilvæg og eftir því sem farið er oftar eykst sjálfsöryggi og aðgerðir verða markvissari þegar á reynir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.