„Rútan ruggaði aðeins en allir náðu að sofa“

Um 60 nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra gistu í rútu á Vestfjarðavegi í nótt, skammt frá vegamótunum á Drangsnes. Matarsending barst frá Reykjanesi um miðja nótt og eftir það sváfu unglingarnir í rútunni og fór ágætlega um þau að sögn Kolbrúnar Maríu Sæmundsdóttur, sem er önnur foreldranna sem eru með í för.

Kolbrún segir að nóttin hafi gengið ágætlega fyrir sig. Hún var afskaplega þakklát Jóni nokkrum sem kom frá Reykjanesi við Ísafjarðardjúp með tvo fulla kassa af samlokum, gos, vatn, safa, súkkulaði, snakk og kaffi fyrir hópinn.

„Eftir það komu þau sér fyrir um alla rútu og náðu held ég öll að sofa eitthvað,“ sagði Kolbrún í samtali við Feyki nú fyrir stundu. „Þau taka þessu misvel, enda misjöfnu vön, en það eru allir rólegir hérna.“ Kolbrún segir að ásamt þeim hafi þrír flutningabílar beðið þarna í nótt.

Vegagerðarmenn voru komnir á staðinn um sjöleytið og stendur viðgerð yfir, en áætlað er að viðgerð ljúki um tíuleytið, samkvæmt síðustu fréttum frá Vegagerðinni.

Veður hefur heldur gengið niður, farið er að frysta aftur og einhver úrkoma. Kolbrún segir hópinn reyna að láta fara vel um sig í rútunni og búast megi við einhverri bið eftir að komið verður til Hólmavíkur, enda vegurinn sunnan Hólmavíkur einnig í sundur.

Fleiri fréttir