Rýkur upp með suðvestan stormi eða roki

Búist er við vaxandi hvassviðri á Norðurlandi og Vestfjörðum í kvöld og nótt og hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun vegna þess fyrir morgundaginn og fram á laugardagsmorgun. Í athugasemd veðurfræðings segir að ekkert ferðaveður verði fyrir ferðahýsi eða húsbíla og einnig geti verið mjög erfitt að vera í tjaldi í slíkum vindi.

„Mikilvægt að göngufólk geti leitað skjóls í húsum. Lausamunir geta fokið, og mikilvægt að festa niður eða taka inn trampólín og garðhúsgögn. Sjá gular og appelsínugular viðvaranir sem eru í gildi og fylgjast vel með veðri á t.d. vef Vegagerðarinnar,“ segir í athugasemd veðurfræðings á vedur.is. Búist er við sunnan og suðvestan stormi eða roki, 23-30 m/s og er fólk varað við að mjög hvassar og varhugaverðar vindhviður geta myndast við fjöll allt að 40 m/s.

Á Sauðárkróki er nú verið að undirbúa Steinullarmót í fótbolta og samkvæmt heimildum Feykis hafa um 280 pantanir borist rekstraraðilum tjaldstæða fyrir helgina. Þá er bæjarhátíðin Hofsós heim einnig að hefjast á morgun og ljóst að eitthvað muni gusta um gesti Skagafjarðar en allir eru beðnir um að fara varlega. Og munið lausadótið!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir