Sæluvikan sett í gær
Setning Sæluviku Skagfirðinga fór fram í gær í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Stefán Vagn Stefánsson formaður Byggðarráðs setti hátíðina og í kjölfarið hófust tvær ljósmyndasýningar á sama stað þeirra Jóns Hilmarssonar og Hjalta Árnasonar. Einnig voru úrslit í vísnakeppni í Sæluviku kynnt.
Skagfirðingurinn Þórólfur Stefánsson sem býr og starfar í Svíþjóð flutti nokkur lög á gítar við mikinn fögnuð þeirra fjölda fólks sem saman var kominn til að setja Sæluvikuna.
Alls sendu 22 höfundar efni í Vísnakeppnina, sem orðinn er órjúfanlegur hluti Sæluvikunnar, og er það nokkuð færri en fyrri ár en á móti kemur að fleiri nýliðar voru nú en stundum áður. Stefán G. Haraldsson í Víðidal átti bestu vísuna en óskað var eftir því að höfundar settu saman einhver heilræði. Vísa Stefáns er eftirfarandi:
Forðastu alltaf fals og spott
þá friðar berðu merkin.
Þú skalt öllum gera gott
og Guð mun launa verkin.
Þá áttu þeir Guðmundur Sveinsson Sauðárkróki og Pétur Stefánsson Reykjavík bestu botnana við fyrri parta Hjalta Pálssonar. Guðmundur hafði sinn svona:
Hugsun öll er horfin brott
hausinn virkar lítið.
Það sem áður þótti gott
þykir núna skrítið.
Og Péturs botn var við hringhentan fyrripart:
Ef að þjóðin ekki lætur
örlög bjóða sér að þola.
Léttist róður þagna þrætur
þrautum óðar burt mun skola.
Nokkrir viðburðir fóru fram í forsælunni sem hófst fyrir alvöru á föstudagskvöldið og allir dagar eru hlaðnir skemmtilegum uppákomum fram að lokaballi á laugardagskvöldi.