Samantekt KPMG frá íbúafundi í Húnavatnshreppi

Úr Vatnsdal í Húnavatnshreppi. Mynd:FE
Úr Vatnsdal í Húnavatnshreppi. Mynd:FE

Opinn íbúafundur var haldinn í Húnavatnshreppi þann 28. nóvember síðastliðinn. Fundurinn bar yfirskriftina „Vilt þú taka þátt í að skapa framtíð samfélagsins?“  Á fundinum var farið yfir áherslur í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og að því loknu fór fram vinnustofa sem ráðgjafar KPMG stýrðu. Fundinn sóttu um 40 íbúar. Samantekt frá fundinum hefur nú verið birt á vef Húnavatnshrepps.

Jón Gíslason, oddviti sveitarfélagsins, setti fundinn og fór að því búnu yfir áherslur í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Því næst tók við vinna í vinnustofum þar sem íbúum var boðið að koma á framfæri skoðunum sínum um stöðu málefna sveitarfélagsins og einnig hugmyndum að framtíðaráherslum. Málaflokkarnir sem teknir voru fyrir á vinnustofunum voru: Umhverfismál, samstarfs- og sameiningarmál, fræðslumál, íþrótta- og æskulýðsmál, atvinnumál og fjallskil og fjármál sveitarfélagsins.

Í samantekt fundarins kemur m.a. fram að sjálfbærni, loftslagsmál, náttúrvernd og landnýting eru ofarlega í hugum íbúa og aðgengi að fjölbreyttu námi var mikið til umræðu og nauðsyn þess að börn í sveitarfélaginu hafi kost á samneyti við aðra nemendur, m.a. í íþróttum og frístundum. Undir málaflokknum atvinnumál og innviðir voru orkumál s.s. þrífösun rafmagns, frekari hitaveituvæðing og nýting raforku innan svæðisins íbúum ofarlega í huga ásamt áhuga á nýsköpun og leiðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs í sveitarfélaginu t.d. í ferðaþjónustu. Ríkur vilji var til að bæta aðstöðu og stuðning við bændur, t.d. með hrægámum, bættum girðingum, fjallaskálum og stofnun landbúnaðarnefndar. Þá kom fram sterk krafa um bættar vegasamgöngur innan sveitarfélagsins þó skiptar skoðanir væru varðandi Húnavallaleið.

Meðal fundargesta var almennur vilji til að stefna á sameiningu Austur-Húnavatnssýsla í einu skrefi. Ýmsir nefndu að síðar gæti sameinuð Austur-Húnavatnssýsla komið að sameiningu Norðurlands vestra í eitt sveitarfélag. Þá kom fram að íbúar vilja sameinast öðrum sveitarfélögum á eigin forsendum, án íhlutunar yfirvalda. Fundargestir töldu mikilvægt að undirbúa sameiningu vel og að áherslur íbúa, t.d. varðandi þjónustustig og nýtingu húsnæðis á Húnavöllum, verði hafðar til grundvallar í viðræðunum.

Samtekt KPMG vegna íbúafundarins má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir