Samfélagsviðurkenningar í Húnaþingi vestra

Í gær, miðvikudaginn 30. október, voru veittar samfélagsviðurkenningar í Húnaþingi vestra og voru þær afhentar á fundi félagsmálaráðs. Viðurkenningarnar hljóta þær Elínborg Sigurgeirsdóttir, Þuríður Þorleifsdóttir og Leikflokkur Húnaþings vestra.
Húnaþing vestra veitir samfélagsviðurkenningar annað hvert ár og er þetta í þriðja sinn sem þær eru veittar. Óskað var eftir að íbúar sendu inn tilnefningar um þá aðila sem ættu skilinn virðingarvott fyrir störf sín í þágu samfélagsins og bárust margar góðar tilnefningar svo valið var erfitt.
Að lokinni afhendingu var boðið upp á dýrindis tertu sem Daðey Arna Þorsteinsdóttir,13 ára, bakaði af þessu tilefni.
Í umsögn um handhafa viðurkenninganna segir svo á vef Húnaþings vestra.
Elínborg Sigurgeirsdóttir:
Elínborg hefur lagt mikið af mörkum í þágu tónlistar í Húnaþingi vestra. Hún hefur um áratuga skeið starfað sem skólastjóri, kennari, undirleikari, meðlimur í hljómsveitum og nánast öllu sem kemur að útbreiðslu tónlistar og sönglistar sem er með miklum blóma í sveitarfélaginu.
Þuríður Þorleifsdóttir:
Þuríður hefur með einstakri elju og dugnaði unnið að endurbótum á Verslunarminjasafninu og Gallerí Bardúsu. Óhemju mikil sjálfboðavinna liggur að baki þeim árangri sem þar hefur náðst sem hefur vakið eftirtekt heimafólks og gesta Húnaþings vestra.
Leikflokkur Húnaþings vestra:
Leikflokkurinn hefur vakið athygli fyrir öflugt starf og metnaðarfull verkefni. Fyrr á árinu var sýning leikflokksins á Hárinu valin sem áhugaverðasta áhugamannasýning ársins á landinu. Leikflokkurinn er fyrirmyndar félagsskapur og hvetjandi fyrir samfélagið og hefur lagt sitt af mörkum við að kynna samfélagið út á við.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.