Samgönguráðherra hyggst beita sér fyrir því að innanlandsflug verði hagstæðari valkosti en nú er

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hyggst beita sér fyrir aðgerðum til að gera innanlandsflug að hagstæðari valkosti en nú er. Tillögur ráðherra munu byggjast á niðurstöðum þeirra starfshópa sem fjallað hafa um efnið og munu þær jafnframt taka mið af heildrænni stefnu um almenningssamgöngur í lofti, á sjó og landi.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við spurningum Bjarna Jónssonar varaþingmanns VG í Norðvesturkjördæmi um hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir innleiðingu svonefndrar „skoskrar leiðar“ í innanlandflugi.
Skoska leiðin felst í niðurgreiðslu á flugfargjöldum til íbúa tiltekinna svæða, eða sambærilegum aðgerðum til að gera innanlandsflug að hagstæðari kosti en nú er fyrir íbúa á landsbyggðinni.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um að unnið verði að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og segir Sigurður Ingi að starfshópar á vegum ráðuneytisins sem fjallað hafa sérstaklega um innanlandsflug hafi skoðað möguleika á því að niðurgreiða flugið.
Í sáttmálanum er jafnframt kveðið á um að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stendur vinna nú yfir við mótun heildrænnar, samþættrar stefnu á sviði almenningssamgangna í lofti, á sjó og landi sem mun hafa áhrif á aðgerðir í innanlandsflugi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.