Samstaða og bjartsýni í Húnaþingi vestra - Áskorandi Guðmundur Haukur Sigurðsson Hvammstanga

Í upphafi nýs árs þá tíðkast gjarnan að líta um öxl og eins að horfa aðeins fram á veginn. Við hér í Húnaþingi vestra höfum tvö síðustu ár þurft að fást við ýmiss krefjandi verkefni sem reynt hafa á íbúana og þeir sýnt hvers þeir eru megnugir. Rifjum upp þrennt sem mér finnst standa upp úr.

Vorið 2019 tókum við á móti 23 Sýrlenskum flóttamönnum. Ég held að þetta verkefni hafi verið samfélaginu til sóma. Stór hluti íbúanna kom að þessu viðfangsefni á einhvern hátt og í sameiningu höfum við stuðlað að því að þessir nýbúar hafa aðlagast vel í framandi umhverfi og m.a. farnir að tjá sig vel á íslensku. Þau urðu strax nýtir þegnar sem svo sannarlega leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Desemberveðrið 2019 var líka ákveðinn prófsteinn á samfélagið. Veðurfarslegar hamfarir sem leiddu í ljós hversu vanbúin hin ýmsu kerfi voru sem eiga að þjóna okkur svo sem hvað varðar raforku, fjarskipti og fréttir. Eitthvað sem átti ekki að geta gerst varð skyndilega raunin. Rafmagnsleysi, léleg fjarskipti og rýr hlutur RÚV í að koma skilaboðum til fólksins. Allt í einu varð þetta staðreynd svo sólarhringum skipti. Þá kom í ljós styrkur innviða sveitarfélagsins og sjálfboðaliða sem þar starfa var meiri en opinberu þjónustufyrirtækjanna. Heimamenn sáu til þess að við komum að mestu ósködduð út úr þessum hremmingum.

Svo þurftum við endilega að taka covidið með trompi, alltaf þurfum við að komast í fréttirnar hér í Húnaþingi vestra. Í lok mars á síðasta ári voru hvergi jafn margir smitaðir í landinu miðað við höfðatölu. Já við urðum einna fyrst til að reyna svokallaða úrvinnslusóttkví. Nánast algjört útgöngubann var í viku sem við íbúarnir tókum mjög alvarlega. Með samtakamætti unnum víð bug á veirunni og hún hefur nánast látið okkur í friði síðan.

Samstaða og bjartsýni hafa að mínu mati verið kjörorðin í Húnaþingi vestra á síðustu árum. Mikil uppbygging í samfélaginu sem lýsir sér í byggingu fjölda nýrra húsa og íbúða bæði í þorpi og sveit. Staðan í dag er sú að það er engin íbúð til sölu á Hvammstanga. Ég tel að á Hvammstanga vanti einkum smærri íbúðir til kaups eða leigu þannig að markaðnum sé sinnt. Þá getur eldra fólk skipt úr stærri eign í minni og yngra fólk sem hér vill setjast að keypt eða leigt sína fyrstu íbúð. Nýbygging rís nú við grunnskólann og verður hann þá undir einu þaki ásamt tónlistarskólanum. Þegar þessi bygging verður að fullu komin í notkun haustið 2022 verður enn betur hugað að unga fólkinu okkar.
Það er gott að búa í Húnaþingi vestra.

Ég skora á Sigríði Ólafsdóttur sauðfjárbónda og sveitarstjórnarfulltrúa í Víðidalstungu að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 6. tbl. Feykis 2021

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir