Samstaða og öflug viðspyrna á árinu 2020

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2020 var samþykktur í sveitarstjórn 19. maí sl. Árið var sem kunnugt er um margt sérstakt vegna mikilla áhrifa Covid-19 veirunnar á starfsemi og rekstur sveitarfélagsins. Sveitarstjórnarmenn sýndu að hagsmunir skagfirsks samfélags ganga ávallt framar meiningarmun um einstök pólitísk álitaefni og stóðu þétt saman um öfluga viðspyrnu til að draga úr þeim áhrifum sem afleiðingar Covid-19 hafa haft á skagfirskt samfélag.

Með því var leitast við að snúa vörn í sókn með velferð íbúa að leiðarljósi og enn frekari styrkingu samkeppnisfærni þess þegar kemur að búsetu, atvinnu og vellíðan íbúanna. Segja má að þetta hafi tekist vonum framar því árið 2020 var mikið framkvæmdaár hjá sveitarfélaginu og mikil uppbygging átti sér víða stað í héraðinu, stuðlað var að fjölgun bæði tímabundinna og varanlegra starfa með margvíslegum aðgerðum, staðinn var vörður um mikilvæga þjónustu og styrkingu innviða með þeim jákvæðu afleiðingum að íbúum fjölgaði um 50 manns á árinu.

Áskoranir og öflug viðbrögð vegna Covid-19 heimsfaraldursins
Vissulega hafði Covid-19 heimsfaraldurinn veruleg áhrif á rekstur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og má áætla að beinn tekjumissir og aukinn kostnaður á árinu 2020 nemi a.m.k. 110 m.kr. Þrátt fyrir það sýnir ársreikningur ársins 2020 þá ánægjulegu rekstrarniðurstöðu að afkoman er jákvæð um rúmar 46 m.kr. Er það um 88 milljónum króna lakari niðurstaða en upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en þessi niðurstaða verður að teljast afar góður árangur í þeim erfiðu kringumstæðum sem verið hafa af völdum kórónaveirunnar. Þetta sýnir okkur að innviðir og rekstur í Sveitafélaginu Skagafirði eru traust og að á undanförnum árum hafi undirstöður samfélagsins verið byggðar upp á sterkum grunni.

Fjárfestingar voru miklar hjá sveitarfélaginu á síðasta ári og námu fjárfestingarhreyfingar samstæðunnar 714 milljónum króna og fjárfestingar í varanlegum rekstarfjármunum námu 688 milljónum króna. Er það um 260 milljónum króna hærri fjárhæð en lagt var upp með í fjárhagsáætlun ársins 2020 en samstaða var um það í sveitarstjórn að auka fjárfestingar og framkvæmdir sem lið í aðgerðum til viðspyrnu vegna áhrifa kórónaveirunnar.

Skuldahlutfall samstæðu A- og B-hluta er 123,4% en var árið 2019 117,1%. Skuldaviðmið samstæðunnar nú 90,5% og hækkar lítillega frá árinu 2019 en þá var skuldaviðmiðið 88,2%. Þrátt fyrir það eru skuldahlutfall og skuldaviðmið langt undir þeim mörkum sem lög setja sveitarfélögum og hefur farið ört lækkandi hin síðustu ár.

* Myndin sýnir skuldahlutfall og skuldaviðmið eins og það er reiknað út frá gildandi reglum á hverjum tíma.
Eignir samstæðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu um síðast liðin áramót um 11,1 milljarði króna en voru í árslok 2019 rúmir 10,1 milljarðar króna og hafa því aukist um tæpar 1000 milljónir króna.

Samstaða og samvinna í þágu samfélagsins
Þegar litið er til þessara staðreynda er árið 2020 hvað varðar þjónustu, framkvæmdir og rekstur Sveitarfélagsins Skagafjarðar mikill varnarsigur fyrir okkur sem erum í sveitastjórn. Sveitarstjórnarmenn voru sammála um og unnu þétt saman að umfangsmiklum aðgerðum í upphafi heimsfaraldursins með það að markmiði að vernda samfélagið okkar, heimili, fyrirtæki og félagasamtök. Við teljum að árangurinn sýni að metnaðarfullu markmiði hafi verið náð.

Stefán Vagn Stefánsson
Gísli Sigurðsson
Bjarni Jónsson
Ólafur Bjarni Haraldsson
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Regína Valdimarsdóttir
Álfhildur Leifsdóttir
Jóhanna Ey Harðardóttir
Axel Kárason

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir