Samtal um náttúruvernd og ganga um Spákonufellshöfða með SUNN
feykir.is
Austur-Húnavatnssýsla
13.05.2025
kl. 14.24
Laugardaginn 17. maí verður viðburður á vegum SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi sem býður til samtals á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið á Skagaströnd. Viðburðurinn hefst á gönguferð um friðlandið í Spákonufellshöfða, þar sem Einar Þorleifsson náttúrufræðingur sér um leiðsögn. Skoðum fugla, plöntur og áhugaverða jarðfræði svæðisins.
Því næst verður boðið í kaffi í Bjarmanesi, þar sem fundargestir fá tækifæri til þess að koma sínum hugðarefnum sem tengjast náttúru- og umhverfisvernd á framfæri. Rakel Hinriksdóttir, formaður SUNN, heldur stutta kynningu um samtökin og tekur þátt í fundinum.
„Samtalið verður á óformlegum nótum, en aðalatriðin tekin saman og tekin fyrir á næsta stjórnarfundi SUNN,“ segir Rakel. „Þarna gefst gott tækifæri til þess að forvitnast um og hafa áhrif á starf SUNN, en það er mjög fjölbreytt. Náttúrufegurð Norðurlands er gríðarleg og aldrei hefur verið jafn mikilvægt að almenningur taki afstöðu til málefna og réttar náttúrunnar. Eins og staðan er á náttúruverndin engan fulltrúa á þingi og náttúruverndarsamtök um allt land eru að eflast og finna til ábyrgðar.“
Mæting verður kl 13.30 við Bjarmanes, gangan verður í ca. 60 mín. Fundurinn verður í klukkutíma, verður í síðasta lagi slitið kl 16.00.