Sanngjarn sigur á Vængjum Júpíters

Karlalið Tindastóls mætti í dag Vængjum Júpíters á Fjölnisvellinum í Reykjavík fyrir sunnan. Eftir pínu svekkjandi jafntefli í fyrsta leik var mikilvægt fyrir Stólana að koma sér í sigurgírinn í 3. deildinni og það var að sjálfsögðu það sem drengirnir gerðu. Þeir náðu tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en gerðu sér pínu erfitt fyrir með því að gefa mark seint í leiknum. Lokatölur þó 1-2 og góður sigur staðreynd.

Bæði liðin fengu skelli gegn góðum andstæðingum í Mjólkurbikarnum fyrr í vikunni en stóðu þó lengi í sínum andstæðingum. Luke Rae og Jónas Aron héldu uppteknum hætti og skoruðu, Luke á 15. mínútu og Jónas á 38. mínútu. Að sögn Óskars Smára Haraldssonar (aðstoðarþjálfara) þá voru Stólarnir ekki upp á sitt besta og margt sem menn vildu laga í hálfleik þó staðan væri 0-2.

„Í seinni hálfleik þá vorum við langt frá því að sýna okkar rétta andlit og hleypum Vængjum Júpíters inn í leikinn með slæmu marki sem við teljum að hafa verið gjöf af okkar hálfu,“ sagði Óskar Smári nú í kvöld í spjalli við Feyki. „En sem betur fer fór seiglan og liðsheildin með þetta alla leið og ef við hefðum nýtt sénsana betur þá hefðum við getað skorað fleiri mörk.“ 

Aðspurður um hverjir hefðu verið sterkir í dag svaraði Óskar: „Ísak var að vanda virkilega flottur og sama má segja um Jónas, Luke og Ford. Þetta var okkar þriðji leikur á einni viku og jafnframt voru flestir sem tóku þátt í dómgæslu daginn áður [á Steinullarmótinu] og því eðlilegt að smá þreyta sé í mannskapnum. En við erum fyrst og fremst ánægðir að hafa tekið stigin þrjú með okkur heim og bíðum spenntir eftir að mæta KFG á Sauðarkróksvelli næstkomandi föstudag!“

Leikurinn gegn Garðbæingum hefst kl. 18:00. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir