Selasetrið skrifar undir samkomulag við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið
Selasetur Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafa nú gert með sér samkomulag um að rannsóknir á sel við Ísland og verkefni honum tengd verði framvegis í umsjón Selaseturs Íslands. Rannsóknirnar verða eftir sem áður og eins og ástæða þykir til samstarfsverkefni stofnana sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytisins. Einnig verða kallaðir til ýmsir hagmunaðilar eftir því sem þurfa þykir. Auk rannsókna á líffræði og lífsháttum sela mun setrið m.a. rannsaka áhrif selveiða á selastofna og skoða hvort og með hvaða hætti sé rétt að setja reglur um slíkar veiðar.
Í samkomulaginu kemur einnig fram að Selasetri Íslands sé falið að skipuleggja og annast kennslu, námskeiðahald og aðra fræðslu um seli við Ísland, eftir atvikum í samstarfi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, stofnanir þess og hagsmunaaðila. Þá er gert ráð fyrir að setrið sjái um fjármál og ráðningar rannsóknamanna og annarra starfsmanna. Gert er ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi yfirumsjón með framangreindum verkefnum en að miðstöð fyrir starfsemina verði hjá Selasetri Íslands á Hvammstanga. Umfang og framkvæmd þessara verkefna byggist á að framlög fáist til þeirra á fjárlögum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.