Sesselja Barðdal rekur Kaffi Kú í Eyjafirði - Tóku á móti rúmlega 40.000 ferðamönnum

Bændurnir í Garði í Eyjafjarðasveit, Einar Örn Aðalsteinsson og Sesselja Barðdal. Aðsendar myndir
Bændurnir í Garði í Eyjafjarðasveit, Einar Örn Aðalsteinsson og Sesselja Barðdal. Aðsendar myndir

Ferðaþjónustuaðilar í Eyjafirði ætla að opna dyrnar upp á gátt sunnudaginn 7. des og verða með allskonar tilboð og skemmtilegheit fyrir gesti og gangandi fyrir jólin. Króksarinn Sesselja Barðdal er framkvæmdastjóri og eigandi vöfflu- og afþreyingarkaffihússins Kaffi Kú og einn hvatarmaður verkefnisins. Feykir sendi Sesselju spurningar og forvitnaðist um þennan tiltekna viðburð og kaffihúsareksturinn í sveitinni.  

Sesselja situr í stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og segir hún félagið hafa unnið skemmtilegt starf með Símey og Hæfnisetrinu síðastliðið ár. Starfið snýst um það að þeir 26 ferðaþjónustuaðilar sem staðsettir eru í Eyjafjarðarsveit, flestir einyrkjar eða reka lítil fyrirtæki, reyna að finna út hvað einkennir þá, fyrir hvað þeir standa og hvert þeir stefna.

„Þetta hefur verið frábært starf og gaman að sjá hvað fólk er tilbúið að deila þekkingu og vinna saman þrátt fyrir að við séum í raun samkeppnisaðilar. Við erum búin að sjá að við erum sterkari saman og að samvinna er miklu skemmtilegri en ekki.“ 

Það verða allir að taka þátt í jólagleðinni. Heimasætan á bænum, Ásdís Rós Barðdal, með einum jólakálfinum.Opnum dyrnar, er þetta nýtt eða hefur þetta verið áður?
„Þetta er í raun alveg nýtt. Það sem hefur verið gert áður er að bændur opnuðu sínar dyr fyrir gestum og gangandi á sumardaginn fyrsta og þá til að kynna hefðbundin sveitastörf o.fl. Þessi opnun snýst fyrst og fremst um að bjóða upp á flott tilboð fyrir jólin, kynna alla þá afþreyingu og gistimöguleika sem eru í boði, það eru allir að bjóða upp á skemmtilega upplifun á sínum stað og fara mismunandi leiðir í að dekra við viðskiptavinina.“

Hvernig hefur gengið að undirbúa viðburðinn?
„Það hefur gengið mjög vel. Það eru einungis konur í stjórninni og það er hrikalega gaman hjá okkur. Við erum allar spenntar fyrir þessu starfi og okkur finnst gaman að vinna saman.Við erum mjög glaðar yfir því hve margir ætla að vera með opið og hvað fólk er jákvætt fyrir samvinnunni. Ég verð að fá að nefna þessar frábæru konur sem eru með mér í stjórn og eru að vinna þetta óeigingjarna starf. En þetta eru þær: María Pálsdóttir frá Hælinu, Heiðdís Pétursdóttir frá Íslandsbæ, Hefna Ingólfsdóttir frá Ásum gesthouse og Sigríður Ketilsdóttir frá Sólarmusterinu.

Hvað geturðu sagt mér um þitt fyrirtæki, Kaffi Kú?
„Kaffi kú er vöfflu- og afþreyingarkaffihús í 10 mínútna fjarlægð frá Akureyri. Kaffi kú opnaði fyrst árið 2011 og hefur stækkað á hverju ári síðan. Í fyrra tókum við á móti rúmlega 40.000 manns, bæði innlendum og erlendum ferðamönnum. Okkar sérhæfing er að bjóða upp á upplifun í margskonar myndum. Má þar nefna útsýnið yfir fjósið þar sem gestir geta fylgst með 300 hamingjusömum kúm og kálfum. Við leggjum okkur fram við að vera með fjölskylduvæna viðburði um helgar og við bjóðum upp á geggjaðar vöfflur, bæði matar- og sætar vöfflur. Síðast en ekki síst þá tökum við glöð á móti hundum og köttum á Kaffi kú.

Ég sjálf er með sveinspróf í framreiðslu og finnst svakalega skemmtilegt að þjóna fólki og legg mig fram við að gera heimsóknir fólks til okkar eftirminnilegar. Þann 1. nóvember frumsýndum við nýjan matseðil og höfum við fengið mjög jákvæð viðbrögð við honum. Ég er að sjálfsögðu ekki ein að vinna að þessu öllu. Maðurinn minn, Einar Örn Aðalsteinsson, sér um allan rekstur og stendur vaktina. Hann býr yfir allri þekkingunni á landbúnaði og svo er hann orðin ansi flinkur í eldhúsinu. Einnig vorum við svo heppin að geta stækkað teymið okkar síðasta sumar og erum nú orðin fjögur sem vinnum saman, sem sagt við hjónin ásamt Baldvini Stefánssyni matreiðslumanni og Lydíu Rós Waage samfélgasmiðlara og hugmyndavél.

Þessi tvö eru algjörlega frábær og við svo heppin að hafa þau með okkur í liði ásamt því að hafa duglegar skólastelpur sem vinna með okkur um helgar. Það er mikið á döfinni hjá okkur næstu vikur og ég hvet fólk til þess að fylgjast með okkur á facebook, Instagram og á heimasíðunni okkar á www.kaffiku.is. Á heimsíðunni eru allir okkar viðburðir,  fjósið í beinni þar sem viðskiptavinurinn getur kíkt á kálfaleikskólann á Kaffi kú, hvort sem þeir búa í Kína eða á Króknum. Sælkeraverslunin er á sínum stað með nautakjötið o.fl., ásamt skemmtilegum fróðleik um íslenska nútíma mjólkurframleiðslu.“

Hvað er vinsælast hjá ferðamönnum eða gestum?
„Vinsælast hjá erlenda ferðamanninum er að koma í fjósaferð með leiðsögn. Ferðin heitir „Learn, feel and taste“ og er hægt að bóka á Booking meðal annars. Í túrnum fær viðskiptavinurinn fræðslu um alla þá tækni sem fjósið býður upp á ásamt því að fræðast um íslensku kúna og íslensk matvæli. Einnig fá þeir að smakka mat beint frá býli og síðast en ekki síst knúsa kálfana. Heimamaðurinn er líka mjög duglegur að koma í heimsókn og er ég óendanlega þakklát fyrir það. Margir Króksarar hafa kíkt til okkar og síðasti hópur sem ég man eftir frá Króknum var full rúta af eldri borgunum, sem ég hélt að væri allt fólk á miðjum aldri. Akureyringurinn er líka duglegur að koma með börnin sín um helgar og fá sér góðan kaffisopa og kíkja í fjósið.“

Hvernig gekk sumarið?
Sumarið gekk bara ágætlega við vorum þó ekki nógu ánægð með júlí. Við erum vön að fá fullt af Íslendingum á þessum tíma en veðrið spilar þar stórt hlutverk. Sólin var fyrir sunnan í júlí þetta sumarið. Sunnlendingar voru aðeins heppnari og fundum við fyrir því. Hins vegar voru fleiri útlendingar hjá okkur í sumar en hefur verið þannig þetta slapp til.“

Hvað er best við jólin?
„Það besta við jólin er að vera með fjölskyldunni, fá lakkrístoppa hjá mömmu, kíkja á systkini mín á Króknum og börnin þeirra. Nota sömu frasa og pabbi á aðfangadagskvöld, má þar nefna:  „Ég vil bara biðja ykkur um eitt, að borða hægt og njóta“. Spila vist á nýársdag með Sirrý frænku og fjölskyldu, hitta gamla vini og kjafta fram á nótt. Að vera með mínum nánustu er það besta við jólin.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Mig langar til að hvetja Skagfirðinga og aðra að kíkja rúnt í Eyjafjarðarsveit helgina 7.-8. desember. Tilvalið að kaupa upplifun í jólapakkann í ár og njóta aðventunnar um leið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir