Setur tileinkað Sturlungu og Örlygsstaðabardaga sett upp í Aðalgötu 21-21a

Upphaflega var gert ráð fyrir því að nota húsnæðið við Aðalgötu 21-21a undir starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga þegar sveitarfélagið og Kaupfélag Skagfirðinga höfðu  makaskipti á því og Minjahúsinu sem stendur við Aðalgötu 16b árið 2016. Mynd: BÞ.
Upphaflega var gert ráð fyrir því að nota húsnæðið við Aðalgötu 21-21a undir starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga þegar sveitarfélagið og Kaupfélag Skagfirðinga höfðu makaskipti á því og Minjahúsinu sem stendur við Aðalgötu 16b árið 2016. Mynd: BÞ.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að setur sem tileinkað verður Sturlungu og Örlygsstaðabardaga, verði opnað í Gránu og gamla mjólkursamlaginu á Sauðárkróki við Aðalgötu 21-21a.  Upphaflega var gert ráð fyrir því að nota húsnæðið undir starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga þegar sveitarfélagið og Kaupfélag Skagfirðinga höfðu  makaskipti á því og Minjahúsinu sem stendur við Aðalgötu 16b árið 2016.

Í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Skagafirði kemur fram að hópur fjárfesta hafi gert samning við sveitarfélagið um leigu á framangreindu húsnæði en í því verður opnað setur sem tileinkað verður Sturlungu og Örlygsstaðabardaga. Setrinu er ætlað að auka áhuga ferðamanna, innlendra sem erlendra, á svæðinu og þeirri merku sögu sem býr í Skagafirðinum. Fjárfestingin hleypur á nokkur hundruð milljónum króna og er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í á svæðinu og snýr að ferðamönnum.

„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem hópurinn ætlar að ráðast í og virkilega skemmtilegt að finna fyrir áhuga fjárfesta á Skagafirði og sögunni sem leynist hér,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs sveitarfélagsins. Verkefnið hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma en fyrirhugaðar framkvæmdir voru samþykktar í byggðarráði Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir skemmstu. „Húsin sem um ræðir hafa staðið auð í þó nokkurn tíma og það er mjög mikilvægt fyrir bæjarlífið að þar hefjist starfsemi í þeim á ný – ekki síst þegar um svona spennandi verkefni er að ræða,“ segir Stefán Vagn.

Húsin verða færð í upprunalegt horf svo þau falli sem best að götumyndinni. Framkvæmdir munu hefjast á næstu vikum og þá verður skýrt betur frá starfsemi fyrirhugaðs safns.

Tengd frétt: 

Makaskipti höfð á Minjahúsinu og Aðalgötu 21-21a

Grána færð í upprunalegt horf 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir