Síðasti kappinn á rússnesku kvikmyndahátíðinni í Króksbíói

Vinsælasta barna-ævintýramyndin í Rússlandi í fyrra, Síðasti kappinn, verður sýnd í Króksbíói á laugardaginn.
Vinsælasta barna-ævintýramyndin í Rússlandi í fyrra, Síðasti kappinn, verður sýnd í Króksbíói á laugardaginn.

Sjötta rússneska kvikmyndavikan á Íslandi stendur nú yfir og hafa rússneskar myndir verið í sýningu í nokkrum kvikmyndahúsum í Reykjavík. Farið verður með hátíðina út á land og verður hin vinsæla barna-ævintýramynd The Last Warrior eða Síðasti kappinn sýnd í Króksbíói nk. laugardag 22. sept. kl:17. Að sögn Báru Jónsdóttur hjá Króksbíó er um ævintýra-, gaman-, spennu- og fjölskyldumynd að ræða sem hlaut 2. verðlaun á Gullna Erninum, fyrir förðun og tæknibrellur. Myndin er með rússnesku tali og enskum texta.

Að rússnesku kvikmyndahátíðinni standa Kvikmyndaframleiðslumiðstöðin NORFEST og sendiráð Rússlands á Íslandi, eins og hefð hefur skapast fyrir. Að þessu sinni er kvikmyndavikan tileinkuð því að Rússland og Ísland fagna því saman að 75 ár eru liðin frá því að stofnað var til stjórnmálasambands milli ríkjanna. Á dagskrá eru sjö kvikmyndir sem eru verk framúrskarandi meistara sovéskrar og rússneskrar kvikmyndagerðar frá mismunandi söguskeiðum. Allar kvikmyndirnar hafa unnið til æðstu verðlauna á ýmsum rússneskum og alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Kvikmyndahátíðin hófst í Reykjavík og hefur verið haldin á þremur stöðum í borginni: í Bíó Paradís, hjá Félaginu MÍR – Menningartengslum Íslands og Rússlands og í Háskóla Íslands. Því næst verður farið af stað með bíólest. Hún hefur viðkomu á Höfn í Hornafirði, Eskifirði, Egilsstöðum, Siglufirði og Sauðárkróki.

Sjötta rússneska kvikmyndavikan á Íslandi hófst 13. september og stendur fram á þriðjudag.

Við opnun kvikmyndavikunnar þann 13. september sáu bíógestir myndina TÍMI FRUMHERJA (2017) eftir kvikmyndagerðarmanninn Dmítríj Kíseljov. Með hlutverk fara m.a. aðalleikarar tveggja rússneskra leikhúsa, Jevgeníj Míronov og Konstantín Khabenskíj. Þetta er geimævintýri sem byggist á sannsögulegum atburðum. Sjöundi áratugur 20. aldar er tími virkra skoðanaskipta á milli Rússlands og Íslands en í Sovétríkjunum er hann líka tími mikilla verkefna í geimnum. Nú er komið að því að maður fari út í geimgöngu. Reynslumikill herflugmaður, Pavel Beljajev, og starfsbróðir hans, hinn óreyndi og ákafi Aleksej Leonov sem dreymir um að fremja hetjudáð – þeir tveir eru reiðubúnir til að stíga skrefið út í hið óþekkta. En í þessum leiðangri fer allt úrskeiðis sem hugast getur. Geimurinn er ekki eitthvað fjarlægt og óhlutbundið í hugum fólks í Rússlandi nútímans heldur vinnuvettvangur sem fólki þykir vænt um, rétt eins og þá.

Daginn eftir, 14. september, var sýnd gamanmyndin GÓÐUR STRÁKUR (leikstjóri: Oksana Karas) sem var valin besta myndin á einni stærstu kvikmyndahátíð Rússlands 2016. Þetta er þroskasaga sem lýsir sex dögum í lífi níundabekkings sem er víðlesinn og býr yfir meira sjálfstrausti en aldur hans segir til um. Strax á fyrsta degi lendir strákurinn, Kolja, mitt í hringiðu lífsins. Í fyrsta lagi verður hann ástfanginn af kennara sínum. Í öðru lagi kveikir einhver í skólaviðbyggingu þar sem nýjar tölvur eru. Í þriðja lagi verður Ksjúsha, dóttir skólastjórans og nemandi í eldri bekk, ástfangin af Kolju en hún heldur að hann hafi kveikt í skólanum. Aðeins nokkrir dagar eru til laugardagsins en þá verður haldin skólahátíð þar sem allar persónur þessarar gamanmyndar um mannlega veikleika og sjálfsblekkingar koma saman. 

 Laugardaginn 15. september var myndin BOTNLAUS BELGUR sýnd eftir Rústam Khamdamov, meistaraverk á heimsmælikvarða sem varð stórviðburður á kvikmyndahátíðinni í Moskvu í fyrra. Höfundur er listmálari og teiknari, kunnáttumaður um listastefnur. Myndin er svart-hvít en kvikmyndað er í gömlum höllum og á höfðingjasetrum í Pétursborg; sérhver rammi er fagur. Nú til dags geta fáir aðrir leyft sér að skapa þvílíkt augnayndi sem er svo óendanlega fjarri raunveruleikanum, svo tæra list. Allan tímann svarar sögukona spurningum sem snúast um lífið sjálft. Botnlaus belgur er tómur belgur fyrir óinnvígða en í raun er hann sneisafullur af gersemum og töfrum. Hirðkona í furstahöll segir ævintýri um dularfullt morð á konungssyni í skógi á 13. öld.

Hinn venjubundni fjölskyldubíódagur hátíðarinnar var síðasta sunnudag. Þá var vinsælasta barna-ævintýramyndin í fyrra sýnd en það er sú mynd sem verður í Króksbíó á laugardaginn, SÍÐASTI KAPPINN. Þetta er fyndin, gamansöm og grípandi mynd sem er í uppáhaldi hjá börnum á öllum aldri. Loksins taka persónur úr rússneskum ævintýrum þátt í nútímaævintýramynd. Hending ræður því að Ívan, venjulegur nútímadrengur frá Moskvu, er skyndilega staddur í kynjalandinu Hvítfjallalandi, hliðarveröld þar sem persónur rússneskra ævintýra búa. Þar eru töfrar ómissandi hluti hversdagslífsins en einvígi er háð til að skera úr ágreiningi og þar koma gríðarstór sverð við sögu. Allt í einu er Ívan staddur í miðri baráttu ljósu aflanna við hin dökku.

Kvikmyndin NETIÐ er tekin upp í fiskiþorpi við Hvítahafsstrendur og sýnir íbúa Norður-Rússlands í heimspekilegri dæmisögu um ást. Ungur maður kemur í þorp við Hvítahafið í leit að stúlku sem flýði borgina án þess að kveðja. Einn íbúa þorpsins, gamall karl, vísar honum veginn. Hvorki ungi maðurinn né sá gamli geta ímyndað sér hvaða þrautir bíða á leið þeirra – en þó einkum þegar henni er lokið.

Tvær myndir eru á sérstakri dagskrá sem er tileinkuð gömlum kvikmyndum en vinsældir þeirra hafa farið vaxandi um heim allan. Vissulega eru þær oft einfaldar og sakleysislegar en um leið undarlega heillandi og tilfinningaþrungnar. Það var forvitið og áræðið fólk sem lagði vinnu sína í myndirnar. Myndahöfundar lögðu ekki kapp á það að finna brýn málefni (þeir eftirlétu fjölmiðlum það) heldur einkum á það að finna og skapa nýjar leiðir til listrænnar tjáningar. Kvikmyndatökumenn, vopnaðir stóreflis tökuvélum og með níðþunga filmukassa, sigu ofan í jörð, flugu upp í himin og sigldu út á sjó. Eina slíka heimildamynd, sem var gerð fyrir 70 árum, fundum við á Ríkisþjóðskjalasafni kvikmynda og ljósmynda í Rússlandi. Hún heitir SÍLDVEIÐI VIÐ ÍSLANDSSTRENDUR og er aðeins 19 mín. löng – en þó gerist svo margt á tjaldinu. Frásagnartextinn í myndinni var þýddur yfir á íslensku og settur inn og verður myndin hluti af afmælissýningum okkar víða um land.

Einnig er á dagskrá mynd sem er tileinkuð knattspyrnu, enda er íþróttin í miklu uppáhaldi bæði í Rússlandi og á Íslandi. MARKMAÐURINN frá 1936 er fyrsta sovéska kvikmyndin um íþróttir og hefur fyrir löngu skipað sér á bekk með sígildum íþróttamyndum. Gerðar hafa verið tilraunir til að herma eftir henni en þar hafa fáir haft erindi sem erfiði. Í myndinni er sagt frá venjulegum dreng, Anton Kandídov. Hann vinnur fyrst við landbúnað, eða við að flytja vatnsmelónur á báti eftir ánni Volgu. Menn taka eftir því hversu fimlega Anton grípur vatnsmelónurnar og hleður þeim í bátinn. Honum er sagt að hann gæti orðið markmaður og spilað fótbolta og Anton ákveður að fylgja þessu ráði. Sigrar jafnt sem vonbrigði bíða hans á leið til frægðar milli stanganna.

Frítt er inn á allar kvikmyndasýningarnar, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir