Síðsumarsferð með fiðlu og ljóð
Næstu daga ætla feðginin Sólveig Vaka Eyþórsdóttir og Eyþór Árnason að ferðast um landið með viðburð þar sem tónum og tali er blandað saman. Sólveig Vaka mun leika einleiksverk á fiðlu eftir J.S. Bach, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og frumflytja nýtt verk eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson, sem hann samdi fyrir hana í ár. Eyþór Árnason var nýverið tilnefndur til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna sem Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn stofnuðu nýverið til, fyrir bestu ljóðabók ársins, Ég sef ekki í draumheldum náttfötum. Hann flytur ljóð úr bókinni, sem og eldri bókum sínum.
Sólveig Vaka hefur stundað fiðlunám frá átta ára aldri, en hér heima á Íslandi lærði hún í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, og síðar í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Hún lauk nýverið við fyrsta árið af fjórum í bachelor-námi við Tónlistarháskólann í Leipzig, þar sem hún er nemandi Erichs Höbarths.
Eyþór Árnason er, eins og mörgum lesendum er kunnugt, sveitapiltur frá Uppsölum í Blönduhlíð og útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands vorið 1983. Vorið 1987 hóf hann störf hjá Stöð 2 þar sem hann vann sem sviðsstjóri til ársins 2005 og sem sviðsstjóri hjá Saga film árin 2005-2009. Frá opnun Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu hefur hann svo starfað sem sviðsstjóri þar.
Eyþór hefur gefið út fjórar ljóðabækur: Hundgá úr annarri sveit (2009), en fyrir hana fékk hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Svo ég komi aftur að ágústmyrkrinu (2011), Norður (2015) og Ég sef ekki í draumheldum náttfötum (2016).
„Hún spilar og ég les á milli, við höfum þetta svolítið á víxl. Þetta eru semsagt ljóð eftir mig sem ég mun lesa, ég mun grauta eitthvað í flestum bókunum sem ég hef gefið út. Þetta verður svolítið hingað og þangað, planið er að byrja á fyrstu bókinni og enda á þeirri síðustu, og svo verða einhverjir útúrdúrar inn á milli svo Vaka fái ekki leið á því að heyra alltaf sömu ljóðin á öllum stöðunum,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is á mánudaginn.
Viðkomustaðir feðginanna á Norðurlandi vestra verða sem hér segir:
Miklabæjarkirkja 3. september kl. 16:00
Hóladómkirkja, 4. september kl. 20:00
Þingeyrakirkja, 5. september kl. 20:00.
Aðgangur er ókeypis og eru allir boðnir hjartanlega velkomnir.