Sigga Donna sagt upp
Stjórnir sameiginlegs liðs Tindastóls/Hvatar hafa tekið þá ákvörðun að segja upp samningi við Sigurð Halldórsson þjálfara liðsins. Í yfirlýsingu frá stjórnum félaganna segir; „ Ólík sýn á samstarf Tindastóls og Hvatar átti stærstan þátt í þessari ákvörðun. Sigurður þjálfaði lið Tindastóls á síðasta ári og kom liðinu upp í 2.deild. Það er því ekki með gleði gert að taka þessa ákvörðun. Sigurði eru þökkuð hans störf.“
Feykir hafði í gær samband við Sigurð Halldórsson sem sagðist aðspurður ekki sáttur við þessa niðurstöðu mála enda taldi hann ástæðu uppsagnar sinnar vera hvernig hann velur í liðið hverju sinni og ósætti aðila sem ekki hafi komist í byrjunarlið hafi ráðið miklu um þessi málalok. „Það er heimaleikur hér á Sauðárkróki á föstudag og ég hefði gjarnan viljað fá þann leik til að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun á árinu. En það var ekki vilji manna og því verð ég að taka. Eins hefði ég kosið að fá fund með stjórnarmönnum þar sem farið hefði verið yfir þessi málalok með mér en svo var ekki.“
Aðspurður sagðist Sigurður ekki vera á förum enda í góðri stöðu lögreglumanns á Sauðárkóki.