Siggi Donna áfram hjá Tindastól

 Sigurður Halldórsson var í gær ráðinn þjálfari Tindastóls en liðið mun leika í 2. deild á komandi keppnistímabili.   Hann mun jafnframt þjálfa 2. flokk karla.  Sigurður Halldórsson stýrði liði Tindastóls á síðastu leiktíð en þá vann liðið sig upp og varð meistari í þriðju deild.

 Mikil ánægja er innan raða Tindastóls með þessa ráðningu en Sigurður gjörþekkir innviði Tindastóls og samfélagsins fyrir norðan.  Sigurður þjálfaði Tindastól um nokkurra ára skeið fyrir um 10 árum síðan og kom þá liðinu upp í 1. deild.  Þar náði liðið 5. sæti sem er einn besti árangur liðsins frá upphafi.

 Sigurður Halldórsson er án efa einn reynslumesti þjálfari landsins.  Hann á að baki 24 ára feril sem þjálfari m.fl og 2. fl. og hefur á þeim tíma farið fimm sinnum upp um deild með lið sitt.  Hann hefur sem 2. flokks þjálfari unnið til 4 Íslandsmeistaratitla og einnig orðið Bikarmeistari einu sinni.

 Sigurður á einnig farsælan feril að baki sem leikmaður, hann lék um 250 leiki með m.fl. ÍA og einnig lék hann 13 A landsliðsleiki fyrir Íslands hönd.  Sem leikmaður hampaði hann 4 Íslandsmeistaratitlum og 4 Bikarmeistaratitlum með liði sínu ÍA. 

 Þegar Sigurður tók við Tindastólsliðinu fyrir síðasta keppnistímabil töldu margir liðið ekki nægjanlega sterkt til að koma sér upp.   Stjórn knattspyrnudeildarinnar og Sigurður tóku þá farsælu ákvörðun að nota fyrst og  fremst heimamenn enda gríðarlega góður efniviður að skila sér upp í elstu flokkana.  Þessi ákvörðun skilaði sér svo sannarlega og áfram verður byggt á því sem fyrir er.

 Nú fer í hönd vinna við að búa til leikmannahópinn fyrir komandi keppnistímabil í 2. deild.  Það er hinsvegar ekki ólíklegt að liðið þurfi að styrkja sig eitthvað enda átökin meiri, leikirnir fleiri og tímabilið lengra, allt mun þetta koma í ljós þegar nær dregur sumri.

 Sigurður Halldórsson verður staðsettur á Sauðárkróki í vetur sem er mikilvægt fyrir alla þá leikmenn sem eru fyrir norðan.  Hinsvegar eru nokkrir lykilmenn liðsins staðsettir í Reykjavík yfir vetrarmánuðina og munu þeir æfa þar.

 Stefnt er að því að liðið spila 4 - 5 leiki fyrir áramót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir