Sigtryggur Arnar að spila sína fyrstu landsleiki

Sigtryggur Arnar í sínum fyrsta landsleik. MYND: KARFAN.IS
Sigtryggur Arnar í sínum fyrsta landsleik. MYND: KARFAN.IS

Skagfirðingurinn Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls í úrvalsdeildinni í körfubolta, spilaði á fimmtudaginn sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd en þá mætti Ísland liði Belgíu. Liðin léku síðan aftur í gær og er skemmst frá því að segja að Ísland vann báða leikina og átti Arnar fínar innkomur í báðum leikjum.

Í viðtali við Karfan.is sagðist kappinn ekkert hafa verið stressaður, heldur ákveðinn í að spila sinn leik. Arnar spilaði tæpar 12 mínútur í fyrri leiknum og setti niður tvo þrista í tveimur tilraunum og hann var einnig með sex stig í seinni leiknum á 14 mínútum en nokkur skot rötuðu ekki í körfuna. Það er ljóst að frammistaða Arnars hefur ekki skemmt fyrir honum en þótti standa fyrir sínu.

Ef einhverjir eru búnir að gleyma hverra manna kappinn er þá er pabbi hans Bjössi Sigtryggs frá Framnesi, sem fékk nokkrar villur með Stólunum í denn, og mamma hans er Króksarinn Guðrún Sigmars, systir Ómars Sigmars sem spilaði lengi með Stólunum.

Tólf manna hópur var valinn til að spila gegn Belgum en æfingar fyrir Eurobasket eru fyrir nokkru komnar á fullt. Þrír leikmenn Tindastóls eru í æfingahópnum en auk Arnars voru Pétur Birgis og Axel Kára að gera sér vonir um að komast til Finnlands.

Einn leikmaður til viðbótar í liði Tindastóls á möguleika að spila á Eurobasket en Chris Caird var valinn í æfingahóp Englands fyrir mótið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir