Sigur í fyrsta æfingaleik Stólanna

Þórsari tekur víti sl. föstudag. MYND: ÓAB
Þórsari tekur víti sl. föstudag. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls lék fyrsta æfingaleik sinn fyrir komandi tímabil í körfunni í Þorlákshöfn nú á föstudaginn. Stólarnir eru komnir með fullskipað lið en það sama verður ekki sagt um Þórsara sem tefldu fram mörgum ungum köppum í bland við þekktari stærðir. Stólarnir hafa aðeins æft með fullan hóp í viku eða svo og því kom ekki á óvart að haustbragur væri á liðinu. Sigurinn var þó aldrei í hættu en lokatölur voru 59-81.

Allir fjórir erlendu leikmenn Tindastóls hófu leik ásamt Pétri Birgis og voru nú frekar þunglamalegir framan af en Gerel Simmons sýndi þó laglega takta. Pétur meiddist strax í fyrsta leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum. Baldur hreyfði liðið talsvert og Axel, Helgi Rafn, Viðar, Hannes og Friðrik fengu fljótlega að sýna hvað í þeim býr. Stólarnir voru tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta en náðu fljótlega góðu forskoti í öðrum leikhluta og voru yfir 28-44 í hálfleik. Bilic og Brodnik komu ágætlega inn í leikinn þegar á leið og stóri maðurinn Perkovic lét til sín taka eftir að hafa verið ansi ryðgaður í fyrri hálfleik. Munurinn á liðunum í síðari hálfleik var yfirleitt 15-20 stig og á endanum voru það bekkjamenn sem fengu að stíga dansinn.

Það má reikna með að stuðningsmönnum Stólanna verði boðið upp á öðruvísa körfubolta í vetur en síðustu árin þar sem Martin virtist vilja byggja upp á hraðari og léttari mönnum en eru nú með Stólunum í boði Baldurs Þórs. Simmons var þó snöggur og Bilic og Brodnik virkuðu fjölhæfir. Það verður spennandi að fygljast með næstu vikurnar hvernig liðið mótast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir