Sigurmark á elleftu stundu

Stólarnir fagna fegnir en gestirnir niðurbrotnir eftir að Luke (rólegi maðurinn fyrir miðri mynd) skoraði sigurmarkið á 94. mínútu. MYND: ÓAB
Stólarnir fagna fegnir en gestirnir niðurbrotnir eftir að Luke (rólegi maðurinn fyrir miðri mynd) skoraði sigurmarkið á 94. mínútu. MYND: ÓAB

Það var heilmikill hasar og dúndrandi dramatík á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi þegar Tindastóll og Álftanes mættust í 3. deildinni. Það er búið að vera hálfgert skrölt á Stólunum síðustu vikur og alveg nauðsynlegt að krækja í stigin þrjú sem í boði voru. Álftnesingar, sem sitja í neðsta sæti deildarinnar, reyndust hins vegar sýnd veiði en ekki gefin. Liðin í 3. deild eru ansi jöfn að getu og það vinnst enginn leikur fyrirfram í þessari deild. Luke Rae poppaði upp með sigurmark á síðustu stundu fyrir lið Tindastóls og lokatölur 3-2 í fjörugum leik.

Tindastólsmenn væru sprækir sem lækir í upphafi leiks og sköpuðu sér mýmörg dauðafæri á fyrstu mínútum leiksins. Þeir fóru illa með færin. Takturinn fór svo aðeins úr liðinu þegar Fannar Kolbeins þurfti aftur að yfirgefa völlinn um miðjan fyrri hálfleik vegna meiðsla – þetta er bara lögreglumál! Isaac Owusu kom þá inn á miðjuna og Tanner var færður aftur í vörnina. Fimm mínútum síðar náðu gestirnir forystunni með fallegu marki, Hreiðar Ingi Ársælsson hitti boltann frábærlega utan teigs og Atli Dagur átti ekki séns í marki Stólanna. Eftir þetta bökkuðu gestirnir og Stólunum gekk illa að skapa sér færi fram að hléi.

Stólarnir hafa eflaust ætlað að setja gestina í skrúfstykki í síðari hálfleik en fengu framan í sig kalda vatnsgust þegar þrjár mínútur voru liðnar. Þá ákvað Jón Helgi Pálmason að grípa Atla Dag í landhelgi, skaut á mark Tindastóls af löngu færi og lyfti boltanum hárfínt yfir Atla sem hafði hætt sér framarlega í teiginn. Stólarnir stigu upp og Konni fór mikinn á miðjunni. Varnarjaxlinn splunkunýji, Hamish Thomson, minnkaði muninn á 52. mínútu eftir aukaspyrnu sem Addi vann á hægri kantinum. Stólarnir eyddu mikilli orku í að jafna leikinn og það hafðist á 64. mínútu þegar Jónas Aron náði að búa til skotfæri fyrir sig og lyfti boltanum laglega yfir markvörð gestanna og í fjærhornið. Gull af marki og allt orðið jafnt. 

Æsilegar lokamínútur

Nú ákváðu gestirnir, sem eytt höfðu miklu púðri í að nöldra og skammast í ágætum dómara leiksins, að hefja loks leik en bæði lið ætluðu augljóslega að sækja sigur. Í kringum 80. mínútu þurftu bæði Ísak og Konni að yfirgefa völlinn meiddir og gestirnir náðu yfirhöndinni. Á lokamínútunum fengu þeir fjölda hornspyrna og færa en Stólunum tókst að verja mark sitt með kjafti og klóm. Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, og stuðningsmenn Stólanna farnir að óska þess að dómarinn flautaði af, þá náðu Tindastólsmenn góðri skyndisókn. Tanner fékk boltann á vinstri kantinum og náði föstum bolta fyrir markið, framhjá nokkrum leikmönnum, en á fjærstöng dúkkaði að sjálfsögðu Luke Rae upp á og potaði boltanum í autt markið eins og sönnum markaskorara sæmir. Stólarnir náðu að þessu sinni að verja mark sitt síðustu tvær mínútur leiktímans.

Leikmenn hnigu síðan í völlinn eins og sprungnar blöðrur þegar dómarinn flautaði loks af. Tindastólsmenn af feginleik en Álftnesingar af vonbrigðum. Leikurinn var lengst af fjörugur og þá sér í lagi síðari hálfleikurinn sem var hin besta skemmtun þó tekið hafi í taugar stuðningsmanna Tindastóls sem voru aftur mættir á völlinn. Konni var aðsópsmikill í liði heimamanna og þá áttu nýju kapparnir fínan leik, þó sér í lagi Hamish Thomson sem er ekkert lamb að leika sér við. Eftir veika innkomu náði Isaac Owusu að vaxa inn í leikinn þegar á leið og hreyfði boltann vel. Luke átti ekki góðan leik í gær en hans hæfileikar eru gulls ígildi.

Með sigrinum náðu Stólarnir að koma sér á ný í toppbaráttu 3. deildar en það má segja að ef leikurinn hefði tapast hefði liðið verið komið í fallbaráttu. Það er stutt á milli í þessari deild. Næsti leikur er úti gegn Sindra á sunnudaginn (ef það verður fært) en næsti heimaleikur er 12. september gegn Ægi Þorlákshöfn. Sá leikur er kl. 16 á laugardegi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir