Sitt sýnist hverjum um kosningu til Stjórnlagaþings

Feykir.is stóð nýverið fyrir óvísindalegri skoðanakönnun á netinu en spurst var fyrir um áhuga fólks á þátttöku í kosningu til Stjórnlagaþings. Þátttaka í könnuninni var svo sem ekki stórkostleg en um 250 manns tóku þátt. 44% höfðu ekki áhuga á kosningunum og ætluðu ekki að kjósa.

30% voru spennt fyrir kosningunum og ætluðu að kjósa en 26% voru óákveðin. Rétt er að geta þess að könnunin var í gangi áður en blað með kynningu á þeim vel ríflega 500 frambjóðendum sem kosið er um var sent í hús. Það má því ætla að fleiri hafi nú gert upp hug sinn og jafnvel að einhverjum hafi snúist hugur – í aðra hvora áttina!

Kosið verður næstkomandi laugardag, 27. nóvember, og getur fólk kosið allt að 25 manns. Niðurstöður í talningu verða að öllum líkindum ekki ljósar fyrr en í fyrsta lagi mánudaginn 29. nóvember. Spekingar telja að kosningaþátttaka undir 50% muni veikja þingið en ef þátttaka verði yfir 70% yrði erfitt fyrir Alþingi að hunsa tillögur Stjórnlagaþings.

Fleiri fréttir