Sjálfboðaliðar á Hólum

Dagana 27. september til 1. október dvöldu á Hólum 7 sjálfboðaliðar frá alþjóðlegu samtökunum UST Conservation Volunteers. Þetta voru þau Iva og Katarina frá Tékklandi, Niall frá Írlandi, Jony frá Englandi, Damien og Ophélie frá Frakklandi og Vasilis frá Grikklandi.

Verkefni þeirra að þessu sinni var að lagfæra göngustígana upp í Gvendarskál og Námuna, en einnig að smíða göngubrú og lagfæra gönguleið milli hverfanna í Nemendagörðunum og heim að skólahúsinu.

     Fjallað er um dvöl þeirra á heimasíðu Hóla; „Við ræddum aðeins við hópinn áður en þau héldu á brott og spurðum hvernig þeim hefði líkað dvölin hér á Hólum. Þau voru hæstánægð með allan aðbúnað og viðtökur á Hólum en fannst verst að hafa ekki haft meiri tíma hér því verkefnin væru næg og veðrið auðvitað alveg ótrúlega gott.

Við inntum þau líka eftir því, hve lengi þau hefðu dvalið hér á landi. Eins og farfuglarnir komu þau til landsins í maí og hafa verið á ferðinni í sumar um landið t.d. á Hornströndum og við Mývatn.Þau gista gjarna í tjöldum og fannst því lúxus að fá hús til umráða hér. Þeim er séð fyrir fæði þar sem þau eru að vinna hverju sinni en þiggja ekki önnur laun. Það var Ferðaþjónustan á Hólum sem veitti þeim fæði og húsnæði á meðan þau voru hér.

Nú er verkefnum þeirra að ljúka hér á landi og halda þau af landi brott 11. október.
Við þökkum þeim kærlega fyrir góða viðkynningu og vel unnin störf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir