Sjóvá varar við stormi og asahláku
Eins og greint var frá á Feyki.is í morgun hefur veðurstofan varað við stormi sem mun ganga yfir landið í kvöld og í nótt. Búast má við asahláku og vill Sjóvá því enn og aftur koma ábendingu til almennings um að festa lausa hluti sem og fresta ferðalögum þar til veðrið er gengið yfir.
Það spáir einnig hlýnandi veðri í kvöld og við slíkar aðstæður þá eykst hættan á vatnstjóni vegna stíflaðra niðurfalla, þakrenna eða snjó við innganga kjallara. Oftar en ekki er um að ræða tjón sem ekki er hægt að bæta úr tryggingum.
Það skiptir því miklu máli að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Besta leiðin til þess að fyrirbyggja slík tjón er að tryggja að niðurföll og þakrennur virki sem skyldi. Sjóvá beinir tilmælum til húseigenda að hreinsa vel frá niðurföllum í dag svo að snjór, klaki eða óhreinindi stífli þau ekki og moka vel frá inngangi kjallara.
Hvað getur þú gert?
- Hreinsaðu klaka, snjó, sand og lauf frá niðurföllum og þakrennum. Þau verða að virka þegar snjór og klaki bráðnar hratt og mikill vatnselgur myndast.
- Brjótið klaka frá niðurföllum í götu og í innkeyrslu og mokið snjó frá.
- Hreinsaðu snjó og klaka af svölum en gættu að bílum og gangandi vegfarendum.
- Við inngang í kjallara og við glugga eða veggi á neðri hæð gæti þurft að moka frá snjó.