Skagfirðingar sæmdir riddarakrossi

Þrír Skagfirðingar voru á meðal þeirra fjórtán sem sæmdir voru heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, 17. júní. Þeir eru Sigurjón Björnsson, Jón Kristjánsson og Sigurbjörg Björgvinsdóttir.
Sigurjón Björnsson fæddist á Sauðárkróki árið 1926, sálfræðingur, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, rithöfundur og þýðandi. Hann hlaut riddarakross fyrir framlag til sálarfræði og fornfræða.
Jón Kristjánsson er fæddur í Stóragerði í Óslandshlíð í Skagafirði 11. júní 1942. Hann var alþingismaður Austurlands 1984–2003, alþingismaður Norðausturkjördæmis 2003–2007, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2001–2006 og félagsmálaráðherra 2006. Jón hlaut riddarakross fyrir störf í opinbera þágu.
Sigurbjörg Björgvinsdóttir fæddist á Fyrir-Barði í Fljótum í Skagafirði 1941. Hún var forstöðumaður félagsheimilisins Gjábakka og síðar Gullsmára í Kópavogi. Sigurbjörg hefur starfað mikið að félagsmálum og hefur átt sæti m.a. í Svæðisráði fatlaðra á Reykjanesi og í framkvæmdastjórn Árs aldraðra. Sigurbjörg hlaut riddarakross fyrir störf í þágu aldraðra
Aðrir orðuþegar eru:
Anna Agnarsdóttir prófessor, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir framlag til sagnfræðirannsókna
Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi, Reykjavík, riddarakross fyrir frumkvæði á vettvangi geðheilbrigðismála
Bára Magnúsdóttir skólastjóri, Kópavogi, riddarakross fyrir framlag á sviði danslistar og líkamsræktar
Eyrún Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Garðabæ, riddarakross fyrir störf í þágu þolenda kynferðisofbeldis
Jónatan Hermannsson jarðræktarfræðingur og fyrrverandi tilraunastjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir framlag til
kornræktar og íslensks landbúnaðar
Róbert Guðfinnsson forstjóri, Siglufirði, riddarakross fyrir störf í þágu heimabyggðar
Sigrún Stefánsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi fréttamaður, Akureyri, riddarakross fyrir störf á vettvangi íslenskra fjölmiðla
og fræðasamfélags
Sigurgeir Guðmannsson fyrrverandi framkvæmdastjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir störf á vettvangi íslenskrar íþróttahreyfingar
Tryggvi Ólafsson myndlistarmaður, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar myndlistar
Unnur Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar tónlistar.
Uppfært: Upphaflega var sagt frá tveimur Skagfirðingum í fréttinni en síðar var fréttin uppfærð og þriðja Skagfirðingnum bætt við.
Feykir óskar öllum riddarakrossþegum til hamingju.