Skagfirðingur kjörinn forseti Soroptimistasambands Íslands.

Haustfundur Soroptimista var haldinn í Munaðarnesi  2. október síðastliðinnl. 130 konur víðsvegar að af landinu sóttu fundinn, en Soroptimistar eru alþjóðasamtök fyrir konur í stjórnun og öðrum sérhæfðum störfum. Nýr forseti og ritari koma úr Skagafirði.

Soroptimistar vilja stuðla að heimsmynd þar sem konur og stúlkur fá tækifæri  til að efla sig og mennta svo þær geti látið drauma sína rætast og lagt sitt af mörkum við að skapa sterk og friðsöm samfélög um allan heim.

Soroptimistar vinna að framgangi markmiða sinna bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Félagar eru  um 90 þúsund í um 3000 klúbbum um víða veröld.  Á Íslandi eru nú um 550 félagar í 17 klúbbum.

Á haustfundinn kom Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og las úr bók sinni, „Á MANNAMÁLI“, en hún fjallar um ofbeldi á Íslandi, um brotin, dómana, aðgerðirnar og umræðuna. Soroptimistar eru ein þeirra 20 kvennasamtaka sem mynda regnhlífarsamtökin Skotturnar sem skipuleggja kvennafrídaginn 25. október næstkomandi og standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um kynferðisofbeldi í Háskólabíói sunnudaginn 24. október kl. 10-17.

Á tveggja ára fresti er kosinn forseti, sem er æðsti embættismaður samtakanna. Ingunn Ásdís Sigurðardóttir, deildarstjóri stoðkerfis Árskóla  á Sauðárkróki, tók í fundarlok við embættinu af Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur, fyrrverandi aðstoðarskólastjóra úr Reykjavík og ritari var kosin Ásdís S. Sigurjónsdóttir, loðdýrabóndi og kennari, Skörðugili.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir