Skagfirskur jóla- og menningarandi á MicroBar

Það verður sannkölluð skagfirsk menningarstund með jólaívafi á MicroBar við Austurvöll í Reykjavík nk. fimmtudagskvöld 20. desember frá kl. 19:30 til 21. Þetta er viðburður sem burtfluttir Skagfirðingar ættu ekki að láta framhjá sér fara, um leið og þeir bregða sér kannski í bæinn í verslunar- og menningarleiðangur fyrir jólin. Kynning verður á þremur skagfirskum menningarafurðum sem gefin voru út fyrir þessi jól, matreiðslubókinni Eldað undir bláhimni, kvikmyndinni Óbærilegur léttleiki Laufskálaréttar og Skagfirskum skemmtisögum 2.

Höfundar og ritstjórar verkanna mæta á svæðið og bjóða þau á kostakjörum, árita, lesa upp og kynna. MicroBar, sem eins og Skagfirðingum er kunnugt, er í eigu brugghússins hans Árna Hafstað í Útvík, Gæðings Öls. Af þessu tilefni verður "skagfirskt happyhour" á barnum milli kl. 19 og 21 og Microbjórinn boðinn á 500 kall. Barinn er við Austurstræti, innangengt þaðan gegnum hótel City Center, en megininngangur er hinum megin frá, í Vallarstræti, sundinu milli Ingólfstorgs og Austurvallar.

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir ritstýrir sem kunnugt er matreiðslubókinni og ljósmyndarar eru Pétur Ingi Björnsson og Óli Arnar Brynjarsson. Nýprent gefur bókina út.

Árni Gunnarsson frá Flatatungu framleiðir kvikmyndina um Laufskálaréttir, sem hann og fyrirtæki hans, Skotta Film, hafa unnið að undanfarin ár.

Björn Jóhann Björnsson tók skagfirskar skemmtisögur saman öðru sinni og útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.

/BJB

Fleiri fréttir