Skeljungur fær ekki veitingasölu í Hrútafirði

Skeljungur hafði uppi áform um að reisa söluskála í Hrútafirði nánar tiltekið í landi Fögrubrekku í Bæjarhreppi. Til þess að svo mætti verða hefði þurft að breyta deiliskipulagi hreppsins og var búið að reyna að fá framkvæmdina afgreidda í sveitarstjórninni í um 4 ár.

 „Það er með þungum huga sem ég rita þér þetta bréf." Ritar Einar Arnar Ólafsson forstjóri Skeljungs í bréfi til íbúa Bæjarhrepps þar sem hann rekur málið frá því að Skeljungur óskaði fyrst eftir því í október 2006 að fá samþykkt breytt deiliskipulag sem gert hefði félaginu kleift að reisa söluskálann í landi Fögrubrekku, skammt suður af þeim stað þar sem N1 byggði síðan nýjan Staðarskála.

Einar segir í bréfinu frá því að meirihluti hreppsnefndarinnar hafi sætt utanaðkomandi þrýstingi og á margvíslegan hátt hindrað framgang málsins og m.a. hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaganna verið þverbrotnar í nánast hverju einasta skrefi á meðan N1 hafi notið góðs af einokunarstöðu sinni á svæðinu og staða þeirra styrkst.

Að mati forstjórans hafa forsvarsmenn Bæjarhrepps gert allt sem í þeirra valdi standi til þess að sporna við starfsemi Skeljungs í hreppnum og brotið bæði stjórnsýslulög og samkeppnislög á grófan hátt og hyggst fyrirtækið nú leita á önnur mið. Þótt Skeljungur hafi lagt ótal vinnustundir og mikla fjármuni í verkefnið hyggist félagið ekki gera skaðabótakröfu á hendur hreppnum enda myndi það á endanum koma niður á íbúum hans.

/Vísir.is

Fleiri fréttir